Nokkuð hefur verið um slys í umferðinni undanfarið og skemmst að minnast tveggja banaslysa í Reykjavík í nóvember þar sem gangandi vegfarandi annars vegar og ökumaður rafhlaupahjóls létu lífið í umferðarslysi snemma dags.
Rétt fyrir klukkan þrjú var tilkynnt um umferðarslys á Arnarnesvegi sem skilur að Kópavog og Garðabæ. Draga þurfi tvær bifreiðar af vettvangi og flytja þurfti einn einstakling á slysadeild til skoðunar vegna minniháttar eymsla.
Á fjórða tímanum varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við Kaldárselsveg. Ástæðuna má meðal annars, samkvæmt skeyti lögreglu, rekja til skyndilegrar bilunar í annarri bifreiðinni. Ökumaður bifreiðarinnar sem ók aftan á hina náði ekki að stöðva bifreiðina í tæka tíð.
Á rafhlaupahjóli í Kópavogi
Um klukkan hálf fjögur var ekið á aðila sem var á rafhlaupahjóli á Digranesvegi í Kópavogi. Viðkomandi var á eða við gangbraut þegar atvikið átti sér stað. Sá var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en lögregla hefur ekki upplýsingar um líðan eða meiðsli viðkomandi.

Á sjöunda tímanum í kvöld var ekið á gangandi vegfarandi í Hlíðarbergi í Hafnarfirði. Hinn slasaði var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
„Þarna skorti endurskinsmerki hjá hinum gangandi en ökumaður sá ekki viðkomandi fyrr en hann hafnaði á bifreiðinni. Mjög slæm birtuskilyrði og veðuraðstæður voru á vettvangi,“ segir í skeyti lögreglu.
Þá varð minniháttar umferðaróhapp á Flókagötu í Reykjavík á níunda tímanum. Lítið tjón varð á bifreiðum og enginn slasaðist.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá löggæslusviði lögreglu á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu í gær að óvenjumörg, og of mörg, alvarleg slys hafi orðið í umdæmi lögreglu á höfuðborgarsvæðinu á stuttum tíma.
Veistu meira um slysin sem urðu í umferðinni í dag? Vísir tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði heitið.