Enski boltinn

Gerrard: „Hér var unnið frá­bært starf áður en ég tók við“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Farið yfir málin í dag.
Farið yfir málin í dag. vísir/Getty

Steven Gerrard, stjóri Aston Villa, er með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir draumabyrjun sína í starfi en liðið hefur unnið báða leiki sína síðan Gerrard tók við stjórnartaumunum.

Aston Villa vann 1-2 útisigur á Crystal Palace í dag og um síðustu helgi vannst 1-0 sigur á Brighton. 

Gerrard tók við liðinu af Dean Smith sem var látinn taka pokann sinn eftir fimm tapleiki í röð.

„Við megum ekki gleyma okkur í gleðinni. Þetta hafa verið góðar tvær vikur og leikmenn hafa verið frábærir. Við þurftum að grafa djúpt í dag og þess vegna er frábært að hafa náð sigri,“ sagði Gerrard í leikslok áður en hann hrósaði forvera sínum.

„Það var unnið frábært starf hér áður en við tókum við. Dean Smith gerði mjög góða hluti hér og frammistaða liðsins í síðustu leikjunum hans átti að skila liðinu fleiri stigum en það gerði.“

„Við höfum komið með mikið af hlutum að borðinu á stuttum tíma og eigum enn eftir að ná betri tökum á því.“

„Við höfum góða sérfræðiþekkingu þegar kemur að föstum leikatriðum hjá Aston Villa og erum vel undirbúnir. Við vorum búnir að merkja veikleika andstæðingsins í þeim atriðum,“ sagði Gerrard, kokhraustur.


Tengdar fréttir

Villa á sigurbraut undir stjórn Gerrard

Aston Villa hefur unnið báða leiki sína síðan Steven Gerrard tók við stjórnartaumunum á Villa Park. Í dag lágu lærisveinar Patrick Vieira í Crystal Palace í valnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×