Erlent

Andersson segir af sér eftir sjö tíma í embætti

Atli Ísleifsson skrifar
Sænska þingið samþykkti í morgun að Magdalena Andersson yrði nýr forsætisráðherra landsins. Síðan þá hefur mikið dregið til tíðinda.
Sænska þingið samþykkti í morgun að Magdalena Andersson yrði nýr forsætisráðherra landsins. Síðan þá hefur mikið dregið til tíðinda. EPA

Magdalena Andersson hefur sagt af sér sem forsætisráðherra Svíþjóðar eftir sjö tíma í embætti. Þetta gerir hún í kjölfar þess að Græningjar tilkynntu að þeir segi skilið við ríkisstjórn landsins eftir að fjárlagafrumvarp borgaralegu flokkanna á þingi, stjórnarandstöðuflokkanna, náði fram að ganga á þinginu í dag. 

Andersson, sem varð í morgun fyrsta konan til að taka við embætti forsætisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti um afsögnina þar sem þörf er á nýrri atkvæðagreiðslu um nýjan forsætisráðherra sökum ákvörðunar Græningja að hverfa úr ríkisstjórn. Stjórnarskrá gerir ráð fyrir að forsætisráðherra segi formlega af sér, fari svo að flokkur hverfi úr samsteypustjórn. 

Hún sagðist þú reiðubúin að leiða minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins, en til þess þarf nýja atkvæðagreiðslu á þinginu þar sem meirihluti þingmanna þarf að umbera þann sem þingforseti tilnefnir til forsætisráðherra, það er ekki greiða atkvæði gegn viðkomandi.

Leiðtogar Græningja, þau Per Bolund og Märta Stenevi, greindu frá ákvörðun Græningja að segja skilið við ríkisstjórnina á blaðamannafundi síðdegis í dag og rökstuddu málið á þann veg að flokkurinn gæti ekki hugsað sér að stýra landinu á fjárlögum sem hægriöfgaflokkur hafi komið að. Vísuðu þau þar til Svíþjóðardemókrata, en þeir lögðu fram sameiginlegt fjárlagafrumvarp ásamt hægriflokknum Moderaterna og Kristilegum demókrötum.

Bolund og Stenevi sögðust jafnframt mjög vonsvikin með ákvörðun Miðflokksins, sem hefur varið stjórnina falli, að leggja fram sitt eigið fjárlagafrumvarp sem varð til þess að fjárlagafrumvarp stjórnarandstöðunnar varð ofan á.

Þar sem Græningjar hverfa nú úr ríkisstjórn þarf nýja atkvæðagreiðslu um forsætisráðherra og segjast þau Bolund og Stenevi reiðubúin að greiða atkvæði með Andersson, verði hún tilnefnd af þingforseta á nýjan leik.

Andersson hafði gegnt embætti fjármálaráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014. Stefan Löfven tilkynnti í haust að hann hugðist segja af sér sem forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmannaflokksins í tengslum við flokksþing Jafnaðarmannaflokksins sem fram fór í byrjun þessa mánaðar. Var Andersson valinn nýr formaður á þinginu og tók svo við sem forsætisráðherra í morgun.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×