Innlent

„Það að stjórnandi láti af störfum er ekki neyðar­á­stand“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

„Rakel er ekki hætt, hún sinnir starfi sínu sem fréttastjóri til áramóta og í kjölfarið verður auglýst eftir fréttastjóra,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri í svari við fyrirspurn Vísis um það hvers vegna ekki verður auglýst í stöðu fréttastjóra RÚV fyrr en eftir áramót.

Greint var frá því 9. nóvember síðastliðinn að Rakel Þorbergsdóttir hefði ákveðið að segja starfi sínu lausu um áramótin. Rakel hefur verið fréttastjóri Ríkisútvarpsins í átta ár en í frétt RÚV var greint frá því að Heiðar Örn Sigurfinnsson yrði starfandi fréttastjóri frá og með 1. janúar og þar til nýr fréttastjóri yrði ráðinn.

Þá sagði að starfið yrði auglýst laust til umsóknar fljótlega á nýju ári.

Vísir sendi RÚV fyrirspurn vegna málsins og spurði þriggja spurninga: Hvers vegna starfið yrði ekki auglýst fyrr en Rakel yrði hætt, hvort ekki væri eðlilegra að vera búin að finna einhvern til að taka við og hvort verið væri að bíða eftir einhverju.

Kolbrún Vaka Helgadóttir, upplýsingafulltrúi RÚV, svaraði spurningunum ekki beint heldur endurtók það sem kom fram í frétt RÚV. Benti hún á útvarpsstjóra ef óskað væri svara beint frá honum.

Þegar sömu spurningar voru sendar á útvarpsstjóra sagði hann engu við þetta bæta; Rakel væri ekki hætt en auglýst yrði eftir fréttastjóra þegar hún væri hætt.

Vísir ítrekaði þá spurninguna; af hverju ekki að auglýsa stöðuna fyrr, fyrst vitað væri að Rakel væri að hætta um áramótin? Af hverju að bíða eftir að hún hætti og auglýsa svo?

„Tímasetningin er skýr og miðast við starfslokin sem eru um áramótin. Það að stjórnandi láti af störfum er ekki neyðarástand sem kallar á einhvern asa, í þessu eins og öllu öðru hjá RÚV vöndum við til verka,“ svaraði þá Stefán.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.