Innlent

Rakel Þor­bergs­dóttir hættir sem frétta­stjóri á Ríkis­út­varpinu

Jakob Bjarnar skrifar
Rakel Þorbergsdóttir er hætt sem fréttastjóri. Ástæðurnar fyrir því hvers vegna koma ekki fram í tilkynningu.
Rakel Þorbergsdóttir er hætt sem fréttastjóri. Ástæðurnar fyrir því hvers vegna koma ekki fram í tilkynningu. aðsend

Rakel Þorbergsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum sem fréttastjóri á Ríkisútvarpinu. Hún hættir um áramót. Ekki er gefin upp ástæða fyrir því hvers vegna þessi ákvörðun liggur fyrir.

Rakel hefur gegnt starfi fréttastjóra frá því í apríl 2014. Í tilkynningu segir að hún hafi á þeim tíma leitt fréttastofuna í gegnum miklar breytingar, einkum í starfsumhverfi fréttastofunnar.

„En einnig ásamt starfsfólki verið leiðandi í miðlun frétta og viðhaldið og byggt upp traust til fréttastofunnar sem mælst hefur mikið í öllum samanburði undanfarin ár. Á þessum tíma hafa miklar breytingar verið gerðar á tækniumhverfi fréttastofu, þar á meðal með nýju og tæknivæddu sjónvarpsmyndveri. Aukin áhersla hefur verið lögð á ítarlegar og vandaðar fréttaskýringar, meðal annars með fréttaskýringaþættinum Kveik sem varð til undir hennar stjórn á fréttastofunni.“

Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri gegnir starfi fréttastjóra þar til Rakel fer frá borði. Í tilkynningunni er haft eftir Rakel að um áramótin verði liðin tæp átta ár síðan hún tók við fréttastjórastarfinu og 22 ár sem hún hefur starfað á fréttastofum RÚV.

„Þessi ár hafa verið afar lærdómsrík, krefjandi og skemmtileg. Ákvörðun mín var því ekki auðveld, fréttastofan er frábær vinnustaður en það er öllum hollt að breyta til og takast á við nýjar áskoranir.“

Hún segist stolt af frammistöðu fólksins á fréttastofu og mun kveðja það með söknuði og hlýju í garð félaga sinna þar. Starfið verður auglýst laust til umsóknar fljótlega á nýju ári.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.