Rannsókn á fleiri en 250.000 fullorðnum og börnum sem fengu Covid-19 leiddi í ljós að meira en helmingur þeirra leið almennt verr í lengri tíma eftir á en áður en þau veiktust. Grein um rannsóknina var birt í vísindaritinu JAMA Network Open.
Í frétt Washington Post um rannsóknina kemur fram að um fimmtungur fólks hafi upplifað skerta hreyfigetu, um fjórðungur einbeitingarleysi eða heilaþoku og tæpur þriðjungur kvíða. Fjórðungur til viðbótar átti í öndunarerfiðleikum og fimmtungur glímdi við hárlos eða útbrot.
Þá reyndist brjóstverkur, óreglulegur hjartsláttur, magaverkir og meltingartruflanir tíðar hjá fólki sem hafði jafnað sig á sjúkdómnum.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna segir að allir sem sýkjast af Covid-19 geti upplifað langvarandi einkenni eftir að þeir ná bata, jafnvel þeir sem fá engin eða væg einkenni á meðan þeir greinast jákvæðir.