Erlent

Helmingur glímdi við afleiðingar Covid í hálft ár eða lengur

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk sem nær bata af Covid-19 getur upplifað ýmis konar einkenni í fleiri mánuði á eftir.
Fólk sem nær bata af Covid-19 getur upplifað ýmis konar einkenni í fleiri mánuði á eftir. Vísir/EPA

Að minnsta kosti helmingur fólks sem jafnaði sig af því að veikjast af Covid-19 glímdi við líkamleg eða andleg veikindi í sex mánuði eða lengur eftir að það var laust við sjúkdóminn. Fólk upplifði meðal annars þyngdartap, síþreytu, hita og verki.

Rannsókn á fleiri en 250.000 fullorðnum og börnum sem fengu Covid-19 leiddi í ljós að meira en helmingur þeirra leið almennt verr í lengri tíma eftir á en áður en þau veiktust. Grein um rannsóknina var birt í vísindaritinu JAMA Network Open.

Í frétt Washington Post um rannsóknina kemur fram að um fimmtungur fólks hafi upplifað skerta hreyfigetu, um fjórðungur einbeitingarleysi eða heilaþoku og tæpur þriðjungur kvíða. Fjórðungur til viðbótar átti í öndunarerfiðleikum og fimmtungur glímdi við hárlos eða útbrot. 

Þá reyndist brjóstverkur, óreglulegur hjartsláttur, magaverkir og meltingartruflanir tíðar hjá fólki sem hafði jafnað sig á sjúkdómnum.

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna segir að allir sem sýkjast af Covid-19 geti upplifað langvarandi einkenni eftir að þeir ná bata, jafnvel þeir sem fá engin eða væg einkenni á meðan þeir greinast jákvæðir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.