Erlent

Á­byrgð beggja að sam­keppnin verði ekki að á­tökum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden og Xi áttu langan fund í gegnum fjarfundarbúnað í gærkvöldi.
Biden og Xi áttu langan fund í gegnum fjarfundarbúnað í gærkvöldi. epa/Sarah Silbiger

Joe Biden Bandaríkjaforseti hóf netfund sinn með Xi Jinping, forseta Kína, með þeim orðum að báðir bæru ábyrgð á því að rígur milli ríkjanna tveggja yrðu ekki að átökum.

Fundurinn varði í meira en þrjá og hálfan tíma en Biden sagðist vonast til að leiðtogarnir tveir gætu átt opin og hreinskilin samskipti og varðað leiðina fram á við.

„Við þurfum að koma upp skynsamlegum vegriðum, vera skýr og hreinskilin varðandi það sem við erum ósammála um og vinna saman í þeim málum þar sem við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta, sérstaklega í mikilvægum hnattrænum málum á borð við loftslagsbreytingar,“ sagði Biden.

„Það er ábyrgð okkar beggja, sem leiðtoga Kína og Bandaríkjanna, að tryggja að samkeppni ríkjanna á milli verði ekki að átökum, viljandi eða óviljandi,“ sagði forsetinn.

Xi sló einnig vinalegan tón.

„Jafnvel þótt við getum ekki staðið augliti til auglitis, þá er þetta ekki svo slæmt. Ég gleðst yfir því að sjá minn gamla vin.“

Samkvæmt miðlum í Kína sagði Xi að jörðin væri nógu stór fyrir bæði Kína og Bandaríkin. Þjóðir heims byggju í „alheimsþorpi“ og stæðu frammi fyrir mörgum sameiginlegum áskorunum.

„Kína og Bandaríkin þurfa að eiga í auknum samskiptum og samvinnu.“

Meðal þess sem var til umræðu á fundinum voru málefni Taívan en Xi varaði við því að Kína væri reiðubúið til að grípa til afdráttarlausra aðgerða ef yfirvöld í Taívan gerðu sig líkleg til að fara yfir þá línu sem hefði verið mörkuð um sjálfræði svæðisins.

Þá sagði hann stuðningsyfirlýsingar Bandaríkjamanna við sjálfstætt Taívan leik að eldi og að þeir sem léku sér að eldi myndu brenna sig. Biden sagði á móti að Bandaríkjamenn styddu „eitt Kína“ stefnu kínverskra stjórnvalda en á sama tíma væru stjórnvöld í Washington á móti öllum aðgerðum sem breyttu núverandi ástandi í Taívan eða væru til þess gerðar að grafa undan friði.

Ummælin hafa verið túlkuð sem áminning til Taívan um að freista þess ekki að lýsa yfir sjálfstæði og til Kína um að íhuga ekki innrás.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×