Fótbolti

Sáttur með að halda hreinu í Rúmeníu og segir leik liðsins á réttri leið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór og Birkir Bjarnason sátu fyrir svörum í gær.
Arnar Þór og Birkir Bjarnason sátu fyrir svörum í gær. Vísir/Skjáskot

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, var sáttur með að halda hreinu í Rúmeníu. Hann hefði þó viljað sjá íslenska liðið nýta eitthvað af þeim færum sem það fékk í leiknum.

Arnar Þór sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gær fyrir leik Norður-Makedóníu og Íslands í dag. Leikurinn sem fram fer í Skopje er síðasti leikur Íslands í undankeppni HM 2022.

„Við vorum heilt yfir mjög ánægðir með varnarleikinn. Það er alltaf mjög jákvætt að halda hreinu. Við vorum þéttir fyrir og Rúmenar áttu mjög erfitt með að brjóta okkur niður. Þeirra besta færi í fyrri hálfleik kemur úr horni. Þegar þeir voru að ná að skapa sér eitthvað var það oftast eftir einstaklingsmistök í okkar liði.“

„Í heildina var varnarleikurinn mjög góður. Við vorum einnig ánægðir með að skapa okkur fjögur til fimm mjög góð færi, hvort sem það var eftir föst leikatriði eða úr opnum leik.“

Varðandi leik dagsins

„Andstæðingurinn í dag er öðruvísi. Fyrir bæði lið – Rúmeníu og Norður-Makedóníu – er þetta svipaðar aðstæður. Rúmenar hefðu með sigri tryggt sér annað sæti í riðlinum og sömu sögu er að segja af Norður-Makedóníu á morgun (í dag). Það er því ákveðin pressa á báðum þessum liðum.“

„Leikstíllinn er aðeins öðruvísi. Norður-Makedónía eru duglegri, vinnusamar og þeir eru að mínu mati þéttari en Rúmenar. Ég býst ekki við opnum leik, við ætlum ekki að fara opna okkur og við viljum halda leiknum lokuðum eins lengi og hægt er.“

„Við viljum svo byggja á okkar styrkleikum, skapa ákveðið mörg færi og auðvitað nýta þau. Leikurinn verður öðruvísi en það hefur meira með andstæðinga okkar að gera, við munum halda áfram að spila okkar leikkerfi og þróa okkar leik sem er að okkar mati á réttri lið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×