Fótbolti

Arnar Þór fyrir leikinn gegn Norður-Makedóníu: Viljum enda þetta á mjög góðum nótum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.
Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta. Vísir/Vilhelm

Ísland mætir Norður-Makedóníu ytra í lokaleik undankeppni HM 2022 í knattspyrnu á morgun. Arnar Þór Viðarsson og Birkir Bjarnason sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Skopje í dag.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór segir hópinn ákveðinn í því að enda undankeppnina vel eftir allt sem hefur gengið á undanfarnar vikur og mánuði.

„Það er eitthvað sem við höfum talað um, bæði í gær og í morgun. Við viljum enda þetta á mjög góðum nótum. Við förum inn í þennan leik, líkt og við gerðum gegn Rúmeníu og alla aðra leiki, til að vinna.“

„Við vorum ánægðir með stig í síðasta leik en það jákvæðasta við tilfinninguna eftir leik var að það var ákveðið svekkelsi í leikmannahópnum að hafa ekki náð í öll þrjú stigin. Það er í rauninni merki um að leikmönnum liðsins líður vel og þeir eru að taka þessi skref fram á við sem við höfum verið að tala um undanfarna mánuði.“

Staðan í riðli Íslands og leikirnir í lokaumferðinni.

„Við erum að koma úr erfiðum skafli og það er rosalega gott fyrir alla að þetta hafi verið jákvæður leikur, jákvæð frammistaða og jákvæð úrslit í Rúmeníu. Við vorum í leikinn á morgun til að gera nákvæmlega það sama.“

„Ég er búinn að segja þetta oft, þetta eru mörg skref sem við þurfum að taka. Nokkur skref áfram og eitt aftur á bak, við vitum af því. Það er mikilvægt að við höldum áfram að vinna þessa grunnvinnu vel.“

„Að sjálfsögðu myndum við vilja skora nokkur mörk og vonandi bætum við því við leik okkar á morgun. Þar á móti kemur að við gerum okkur grein fyrir því að það er ekki hægt að hoppa yfir nein skref. Við gerum þetta skref fyrir skref og gerum okkur grein fyrir að andstæðingurinn er öflugur og er að spila mjög mikilvægan leik,“ sagði Arnar Þór að endingu en Norður-Makedónía getur með sigri tryggt sér 2. sætið í riðlinum og þar með sæti í umspili um sæti á HM í Katar 2022.

Leikur Norður-Makedóníu og Íslands hefst klukkan 17.00 á morgun, sunnudag, og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×