Íslenski boltinn

Óskar Örn í Stjörnuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Örn Hauksson í Stjörnubúningnum.
Óskar Örn Hauksson í Stjörnubúningnum. stjarnan

Óskar Örn Hauksson, leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar, er genginn í raðir Stjörnunnar frá KR.

Samningur Óskars við KR rann út eftir síðasta tímabil og honum var því frjálst að ræða við önnur félög. Og hann er nú genginn til liðs við Stjörnuna. 

Óskar lék með KR á árunum 2007-21 og er leikja- og markahæstur í sögu félagsins. Hann var fyrirliði KR síðustu árin sín hjá félaginu. Óskar varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari með KR.

„Það er frábært fyrir mig að stíga aðeins útfyrir þægindarammann og taka þátt í mjög spennandi hlutum sem eru framundan í Garðabænum eftir langan og skemmtilegan tíma í Vesturbænum,“ segir Óskar í fréttatilkynningu frá Stjörnunni. 

„Stjörnuliðið er skemmtileg blanda ungra og reyndra leikmanna og ég hlakka til að miðla af reynslunni til þessara ótrúlega spennandi ungu leikmanna ásamt því að gera mitt til að liðið ná að keppa um þá titla sem eru í boði.“

Óskar, sem er 37 ára, hefur leikið 348 leiki í efstu deild og skorað 85 mörk. Hann sló leikjametið í efstu deild haustið 2020.

Stjarnan endaði í 7. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili. Í haust tók Ágúst Gylfason við þjálfun liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×