Enski boltinn

Yfir­gefur Liver­pool að tíma­bilinu loknu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Michael Edwards (til vinstri) ásamt Jurgen Klopp og Mike Gordon.
Michael Edwards (til vinstri) ásamt Jurgen Klopp og Mike Gordon. Liverpool FC/Getty Images

Michael Edwards, maðurinn á bakvið tjöldin í uppgangi Liverpool-liðsins undanfarin ár, mun yfirgefa Bítlaborginni að tímabilinu loknu.

Hinn 42 ára gamli Edwards er yfirmaður knattspyrnumála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool og er að mörgu leyti heilinn á bakvið árangur liðsins á undanförnum árum. Hann hefur nú verið hjá félaginu í áratug.

Samningur hans rennur út í sumar og var talið að hann myndi yfirgefa félagið að því loknu. Hann hefur nú endanlega staðfest það.

Árið 2016 tók Edwards við stöðu yfirmanns knattspyrnumála hjá félaginu og hófst strax handa. Átti hann gríðarlega stóran þátt í því að félagið festi kaup á Alisson, Virgil van Dijk og Mohamed Salah.

Nú er komið að leiðarlokum og mun Julian Ward, aðstoðarmaður Edwards, taka við stöðu hans.

„Ég hafði alltaf stefnt á að færa mig um set eftir að hafa verið hér í áratug. Ég hef elskað hverja mínútu hérna en ég trúi því að breytingar séu jákvæðar. Ég tel það gott fyrir einstaklinginn og vinnuveitanda að breyta til endrum og eins,“ sagði Edwards í viðtali sem birtist á vef breska ríkisútvarpsins.

„Að vera hluti af þessu félagi hefur verið mikill heiður og ég er heppinn að við höfum náð jafn miklum árangri á þeim tíma og raun ber vitni,“ sagði Edwards að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×