Enski boltinn

Hjulmand blæs á sögusagnir um að hann gæti verið næsti stjóri Aston Villa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kasper Hjulmand hefur útilokað að hann taki við Aston Villa.
Kasper Hjulmand hefur útilokað að hann taki við Aston Villa. EPA-EFE/Valentin Ogirenko

Kasper Hjulmand, þjálfari danska landsliðsins í fótbolta, hefur útilokað það að hann sé á leiðinni að hætta með landsliðið til að taka við enska úrvalsdeildarfélaginu Aston Villa.

Fyrr í dag greyndu nokkrir miðlar frá því að Hjulmand væri á lista yfir mögulega arftaka Dean Smith eftir að forráðamenn Aston Villa létu Smith fara frá félaginu um helgina.

Danska landsliðið er samankomið til æfinga, og Hjulmand sagði í samtali við fjölmiðla í dag að hann hefði ekki í huga að yfirgefa landsliðið að svo stöddu.

„Ég er gríðarlega ánægður að vera landsliðsþjálfari Danmerkur, og ég er ekki að fara neitt eins og er,“ sagði Hjulmand.

„Mér finnst ég vera nýbyrjaður og ég er á góðri leið með að komast að því hvað þetta lið getur gert. Það er eðlilegt að svona orðrómur fari af stað. Þannig er þetta bara. Svona gerist á hverjum degi.“

Hann vildi þó ekki útiloka það að eitthvað lið gæti náð að lokka hann til sín.

„Ég vill ekki útiloka neitt. Það er glatað. En það er risastórt að vera landsliðsþjálfari Danmerkur,“ sagði Hjulmand að lokum.

Steven Gerrard, þjálfari skoska liðsins Rangers og fyrrverandi leikmaður Liverpool, er talinn líklegur eftirmaður Dean Smith.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×