Fótbolti

Hjulmand og Gerrard efstir á blaði á Villa Park?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Fullt af tækifærum að opnast í enska boltanum.
Fullt af tækifærum að opnast í enska boltanum. vísir/getty

Minnst tvö ensk úrvalsdeildarlið þurfa að nýta landsleikjahléið til að ráða til sín nýjan knattspyrnustjóra.

Þeir Daniel Farke (Norwich) og Dean Smith (Aston Villa) voru látnir taka pokann sinn um nýliðna helgi en leiða má líkur að því að talsvert öflugri þjálfarar séu undir smásjánni hjá forráðamönnum Aston Villa en Norwich.

Hinn danski Kasper Hjulmand er talinn vera ofarlega á óskalista Aston Villa en hann hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með danska landsliðið á undanförnum mánuðum.

Það þykir renna stoðum undir sögusagnir um Hjulmand að íþróttastjóri (e. sporting director) Aston Villa er landi hans, Johan Lange, sem starfaði áður fyrir FCK en hann mun leiða ráðningarferlið á nýjum knattspyrnustjóra ásamt Christian Purslow, framkvæmdastjóra Aston Villa.

Liverpool goðsögnin Steven Gerrard er einnig á blaði hjá forráðamönnum Aston Villa samkvæmt heimildum SkySports en Gerrard, sem nú þjálfar skoska stórveldið Rangers, er sagður renna hýru auga til spennandi starfs í heimalandinu og miðað við gæði leikmannahóps Aston Villa ætti að vera mikið svigrúm til bætinga á Villa Park.

Ralph Hassenhuttl, stjóri Southampton, hefur einnig verið orðaður við starfið hjá Aston Villa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×