Enski boltinn

Wenger segist hafa átt að hætta miklu fyrr hjá Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsene Wenger gerði Arsenal sjö sinnum að bikarmeisturum.
Arsene Wenger gerði Arsenal sjö sinnum að bikarmeisturum. getty/Stuart MacFarlane

Arsene Wenger viðurkennir að hann hafi verið of lengi í starfi hjá Arsenal. Þetta kemur fram í nýrri heimildamynd um kappann.

Wenger stýrði Arsenal í 22 ár, á árunum 1996-2018, og á þeim tíma varð liðið þrisvar sinnum Englandsmeistari og sjö sinnum bikarmeistari.

Síðustu ár Wengers hjá Arsenal voru þó erfið og margir stuðningsmenn liðsins vildu sjá hann hverfa á braut. Frakkinn hefur nú loksins viðurkennt að hann hefði átt að fara fyrr frá Arsenal.

„Ég samsamaði mig félaginu. Það voru mistökin sem ég gerði. Minn stærsti galli er að ég elska of mikið að vera þar sem ég er. Ég sé eftir því. Ég hefði átt að fara annað,“ sagði Wenger í heimildamyndinni, Arsene Wenger: Invincible.

Wenger segir að margt hafi breyst hjá Arsenal eftir að David Dein hætti sem stjórnarformaður félagsins 2007 og hann hefði kannski átt að fara líka á þeim tíma.

„Árið 2007 fann ég í fyrsta sinn fyrir núningi innan stjórnarinnar. Ég var efins hvort ég ætti að sýna stjórninni eða David tryggð. Enn þann dag í dag velti ég því fyrir mér hvort ég hafi tekið rétta ákvörðun því hlutirnir voru aldrei samir eftir þetta.“

Wenger segist hafa fengið fjölmörg tækifæri til að yfirgefa Arsenal og enginn skortur hafi verið á starfstilboðum.

„Ég hefði getað tekið við franska landsliðinu og því enska tvisvar eða þrisvar. Ég gat í tvígang farið til Real Madrid. Ég gat farið til Juventus, Paris Saint-Germain og jafnvel Manchester United.“

Wenger, sem er 72 ára, starfar nú hjá FIFA og er ötull talsmaður þess að halda heimsmeistaramótið á tveggja ára fresti en ekki fjögurra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×