Erlent

99 fórust þegar eldsneytisflutningabíll sprakk

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fólk safnaðist saman við sprengjustaðinn í morgun.
Fólk safnaðist saman við sprengjustaðinn í morgun. AP Photo/Seima Camara

Minnst 99 fórust og meira en 100 særðust þegar eldsneytisflutningabíll sprakk í kjölfar áreksturs í höfuðborg Síerra Leóne í gærkvöldi. 

Enn mátti sjá bensín leka úr flaki flutningabílsins í morgun á meðan lögregla og her reyndu að vísa stórum hópum fólks frá, sem höfðu safnast saman við flakið. Þetta segir í frétt Reuters um málið. 

Sjá mátti kolsvört flök bíla og mótorhjóla sem skemmdust í sprengingunni og lík á víð og dreif. Hundruð höfðu safnast saman við slysstaðinn í morgun í Wellington hverfinu í Freetown, höfuðborg landsins. 

Flutningabíllinn hafði lent í árekstri og gat komið á bensíntankinn. Hluti þeirra sem fórst í sprengingunni hafði safnast saman við bílinn til að sækja sér bensín sem lak úr tanknum út á götuna að sögn Yvonne Aki-Sawyerr, borgarstjóra. 

Hér fyrir neðan er myndband af slysstað. Það er tekið eftir sprenginguna. Varað er við efni myndbandsins. Það er mjög grafískt og ekki fyrir viðkvæma.

Klippa: Eldsneytisflutningabíll sprakk í Síerra Leóne

Svona slys eru ekki einsdæmi og raunar fremur algeng í mið-Afríku. Hundruð hafa farist á undanförnum árum við það að sækja sér bensín sem hefur lekið, sem síðan hefur sprungið í loft upp. 

Til að mynda fórust 85 í Tansaníu árið 2019 þegar eldsneytisflutningabíll sprakk og fimmtíu fórust í samskonar slysi í Austur-Kongó árið 2018. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×