Erlent

Kast­ljósinu beint að eyðingu smá­skila­boða Mette Frederik­sen

Atli Ísleifsson skrifar
Mette Frederiksen segist hafa breytt stillingum í símanum sínum sumarið 2020 þannig að smáskilaboð eyddust þrjátíu dögum eftir að þau eru send.
Mette Frederiksen segist hafa breytt stillingum í símanum sínum sumarið 2020 þannig að smáskilaboð eyddust þrjátíu dögum eftir að þau eru send. EPA

Sérstök rannsóknarnefnd, sem ætlað er að rannsaka ákvörðun danskra stjórnvalda að láta lóga öllum minkum í landinu vegna stökkbreytts afbrigðis kórónuveirunnar, hefur beint sjónum að ákvörðun Mette Frederiksen forsætisráðherra að láta eyða öllum smáskilaboðum í síma sínum, mánuði eftir að þau eru send.

Frederiksen segir að um stillingaratriði sé að ræða sem hún hafi ákveðið að notast við, en kveðst þó vona að hægt verði að endurheimta þau skilaboð sem nefndin hefur óskað eftir.

DR segir frá því að nefndin hafi óskað eftir gögnum, meðal annars frá forsætisráðherranum, vegna rannsóknarinnar á ákvörðun dönsku stjórnarinnar að láta lóga öllum minkum í landinu. Hafði nefndin óskað eftir afritum af skeytaseningum milli Frederiksen og hennar nánustu samstarfsmönnum um málið.

Eftir ráðgjöf frá stjórnanda í ráðuneytinu

Frederiksen boðaði til blaðamannafundar í gærkvöldi til að ræða málið. Sagði hún að stillingum í símanum hafi verið breytt sumarið 2020, það er áður en ákvörðunin um að lóga öllum minkunum var tekin. Hún hafi breytt stillingum eftir ráðgjöf frá stjórnanda í forsætisráðuneytinu.

„Mér fannst þetta hljóma skynsamlegt. Það var til að tryggja upplýsingaöryggið,“ sagði forsætisráðherrann á blaðamannafundinum í gær.

Hvasst og óheflað orðbragð

Frederiksen segist vona að hægt verði að endurheimta skilaboðin, bæði til að aðstoða nefndina í sinni vinu og sömuleiðis til að sýna fram á að hvorki henni né ríkisstjórninni væri kunnugt um að slík ákvörðun stangaðist á við lög.

Hún fullyrðir að takist að endurheimta smáskilaboðin muni þau ekki sýna fram á neitt nýtt varðandi það hvað hún vissi um málið á þeim tíma. Þau gætu þó mögulega sýnt fram á hvasst og óheflað orðbragð.

Fimmtán milljónum minka lógað

Danska ríkisstjórnin ákvað haustið 2020 að lóga öllum um fimmtán milljónum minka í landinu eftir að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar hafði greinst á fjölda bæja loðdýraræktenda í landinu. Afbrigðið gat smitast úr dýrum í menn.

Skömmu síðar kom í ljós að það bryti gegn stjórnarskrá að lóga öllum minkum sem væru smitaðir af veirunni. Mogens Jensen, ráðherra landbúnaðarmála, sagði af sér í kjölfarið.

Rannsóknarnefndin mun næstu daga ræða við 61 mann innan dönsku ríkisstjórnarinnar og stjórnsýslunnar um ákvörðun stjórnvalda að lóga minkum. Frederiksen verður síðust til að mæta fyrir nefndina, 9. desember næstkomandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.