Undanfarnar vikur hefur þurft að skerða rafmagn til heimila og fyrirtækja víðsvegar um Kína en þó sérstaklega í norðurhluta landsins. Var það að miklu leyti rakið til aukinnar eftirspurnar í kjölfar slökunar á sóttvarnarreglum vegna faraldurs kórónuveirunnar. Kínverskir ráðamenn skipuðu kolanámufyrirtækjum að auka framleiðslu hið snarasta.
New York Times segir áætlað að framleiðsluaukningin samsvari um 220 milljónum tonna af kolum á ári í Kína og er það aukning um sex prósent frá heildarframleiðslunni þar í landi í fyrra. Aukningin er þó meiri en öll árleg kolaframleiðsla í Vestur-Evrópu.
Nú segja ráðamenn að kolamarkaðurinn í Kína sé að ná jafnvægi en Reuters segir verð kola á mörkuðum hafa lækkað um rúm 53 prósent frá því það náði hámarki þann 19. október.
Kolabruni er stærsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Kína er stærsti losandi þessara lofttegunda sem valda hnattrænni hlýnun en stjórnvöld landsins hafa heitið því að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2060.
Þó stendur til að reisa fjölmörg ný kolaorkuver í Kína á næstu árum.
Sjá einnig: Tugir nýrra kolaorkuvera á teikniborðinu í Kína
Kínverjar hafa á undanförnum árum varið miklu púðri í að bæta loftgæði í borgum landsins og með töluverðum árangri. NYT vitnar í rannsókn sem sýndi að árið 2015 leiddi loftmengun til 1,6 milljóna dauðsfalla í Kína. Nú í morgun var varað við því í nokkrum borgum landsins að loftgæði hefðu versnað en engin ástæða nefnd.