Innlent

Hestakona fær skertar bætur vegna ölvunar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hestakonan var talin hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. 
Hestakonan var talin hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.  Vísir/Vilhelm

Hestakona krafðist þess að henni yrðu greiddar fullar bætur vegna líkamstjóns sem hún hlaut eftir fall af hestbaki. Tryggingarfélagið féllst ekki á það og taldi nærri lagi að greiða henni 1/3 hluta tjónsins.

Konan féll af hestbaki þegar hún var í reiðtúr með félögum sínum. Hún höfuðkúpubrotnaði við fallið, hlaut tognun á hálsi og mjóbaki auk maráverka á rófubeini. Lögreglumenn sem komu á vettvang sögðu hana hafa kastað upp og hafa verið illa áttuð eftir fallið.

Tryggingarfélagið bar fyrir sig að konan hafi verið ölvuð í umrætt sinn og sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Henni eigi að hafa verið ljós hættan sem gæti hlotist af því að fara á hestbak í ölvunarástandi. Þannig hafi hún sýnt skeytingarleysi um eigið öryggi, enda ætti öllum að vera ljóst að varasamt geti verið að fara á hestbak í ölvunarástandi.

Vínandi í blóði 2,38 prómill

Héraðsdómari taldi að VÍS bæri að greiða konunni fullar bætur. VÍS undi ekki niðurstöðunni og fór með málið fyrir Landsrétt. Hestakonan vildi staðfestingu á hinum áfrýjaða dómi en VÍS krafðist þess að þurfa einungis að greiða 1/3 af bótunum. 

Landsréttur fór milliveginn í málinu og taldi hestakonuna eiga að bera helming tjóns síns sjálf. Í niðurstöðu dómsins var meðal annars vísað til ölvunar konunnar en vínandi í blóði mældist 2,38 prómill.

Hins vegar væri rétt að horfa til þess að hesturinn hafi fælst enda hafi hrossið farið á harðahlaupum í burtu eftir slysið. Landsréttur taldi því að rekja mætti orsakir slyssins að hluta til utanaðkomandi áreitis, en ekki einungis til ölvunarástands hestakonunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×