Erlent

Heims­leið­togar uggandi yfir kjarn­orku­á­ætlun Írana

Árni Sæberg skrifar
Boris Johnson, Emmanuel Macron, Angela Merkel og Joe Biden fyrir fund leiðtoganna í dag.
Boris Johnson, Emmanuel Macron, Angela Merkel og Joe Biden fyrir fund leiðtoganna í dag. Stefan Rousseau/Getty Images

Leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands, Þýskalands og Frakklands segjast hafa miklar og stígvaxandi áhyggjur af kjarnorkuáætlun Írans. Leiðtogarnir ræddu málið á G20 fundinum í Róm í dag.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að gengið verði aftur að samningaborðinu með Íran til að láta reyna á hvort ekki sé hægt að taka aftur upp samkomulag um kjarnorku sem gert var árið 2015. AP fréttastofan greinir frá.

Hann ásamt öðrum leiðtogum hafi varað Írani við því að hröð og ögrandi skref landsins í átt að þróun kjarnorkuvopna settu samkomulagið í uppnám.

Einn samningsskilmála frá 2015 er að kjarnorkuáætlun Írans sé aldrei nær þróun kjarnorkuvopna en eitt ár.

Í tilkynningu leiðtoganna fjögurra í kjölfar fundarins í dag segir að þeir hafi „áréttað staðfestu sína að því markmiði að Íran geti aldrei þróað eða eignast kjarnorkuvopn.“

Íranir hafa ekki staðfest hvenær samningaviðræður muni hefjast en hafa þó sagt að það verði fyrir lok næsta mánaðar.

Í valdatíð Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta sögðu Bandaríkin sig einhliða úr samkomulaginu. Síðan þá hafa Íranir hægt og bítandi aukið úranauðgun sína, tekið í notkun betri búnað til vinnslu efnisins og auðgað úran af þeirri gerð sem hægt er að nota í kjarnorkuvopn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×