Enski boltinn

Bar ábyrgð á andláti Emilianos Sala

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Henderson mætti fyrir rétt í Cardiff í gær.
David Henderson mætti fyrir rétt í Cardiff í gær. getty/Matthew Horwood

David Henderson, sem skipulagði flugið sem fótboltamaðurinn Emiliano Sala lést í, hefur verið fundinn sekur um að hafa stofnað öryggi flugvélarinnar í hættu og bera þar með ábyrgð á slysinu.

Sala lést í janúar 2019 þegar flugvélin sem hann var um borð í hrapaði í Ermarsund. Flugmaðurinn David Ibbotson lést einnig en lík hans hefur aldrei fundist. Sala var nýgenginn í raðir Cardiff City og var á leið til Wales frá Nantes í Frakklandi þar sem hann lék áður.

Henderson skipulagði flugið sem var að nóttu til. Ibbotson hafði ekki réttindi til að fljúga á nóttunni og þá var flugleyfi hans útrunnið. 

Henderson var meðvitaður um þetta. Eftir slysið bað hann þá sem vissu af fluginu að þegja um að Ibbotson hefði ekki haft réttindi til að fljúga vélinni. Hann sagði að þau myndu opna ormagryfju ef þau tjáðu sig.

Fay Keely, sem átti flugvélina, hafði beðið Henderson um að leyfa Ibbotson ekki að fljúga henni ekki aftur eftir að hafa fengið tvær viðvaranir frá flugmálayfirvöldum. Henderson lét þessi varnaðarorð sem vind um eyru þjóta. Í skilaboðum til Ibbotson sagði hann að þeir ættu möguleika á að græða pening ef þeir héldu viðskiptavinunum ánægðum og flugmálayfirvöld skiptu sér ekki af þeim. 

Henderson var í gær fundinn sekur um að hafa stofnað öryggi flugvélarinnar í hættu og þannig borið ábyrgð á slysinu. Dómur í málinu verður kveðinn upp 12. nóvember en búist er við því að Henderson eigi yfir höfði sér fangelsisdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×