Erlent

Mæla með bólu­setningu barna niður í fimm ára

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ungur bandarískur drengur sést hér bólusettur fyrir kórónuveirunni. Búist er við því að bólusetning barna á aldrinum fimm til ellefu ára geti hafist snemma í næsta mánuði í Bandaríkjunum.
Ungur bandarískur drengur sést hér bólusettur fyrir kórónuveirunni. Búist er við því að bólusetning barna á aldrinum fimm til ellefu ára geti hafist snemma í næsta mánuði í Bandaríkjunum. Paul Hennessy/SOPA Images/LightRocket via Getty

Sérfræðingar bandarísku matvæla- og lyfjastofnunarinnar (FDA) mæla með því að börn á aldrinum fimm til ellefu ára verði bólusett við kórónuveirunni með bóluefni Pfizer.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að sérfræðingateymi á vegum stofnunarinnar hafi greitt atkvæði með því að mæla með bólusetningu barna í aldurshópnum.

Bóluefni Pfizer hafði áður verið samþykkt fyrir fullorðna, og börn niður í allt að tólf ára aldur. Um 28 milljónir barna í Bandaríkjunum eru á aldrinum fimm til ellefu.

Endanleg ákvörðun um bólusetningu hópsins liggur þó ekki fyrir, en hún er háð frekara samþykki innan FDA, auk samþykkis sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC). Búist er við því að slíkt samþykki ætti að liggja fyrir 2. nóvember næstkomandi og að bólusetningar barna í aldurshópnum geti hafist daginn eftir.

Börnin fá þriðjungsskammt af bóluefni

Sérfræðingateymi FDA byggði ákvörðun sína meðal annars á því að kostir bólusetningar barna niður í fimm ára kæmu til með að vega þyngra en mögulegar aukaverkanir.

Börnum í aldurshópnum verður gefið efnið í skammtastærð sem samsvarar þriðjungi af þeim skammti sem fullorðnir fá af bóluefninu.

Samkvæmt tölum hins opinbera í Bandaríkjunum hafa hátt í 740 þúsund manns dáið úr Covid-19 þar í landi. Þar af eru 160 börn á aldrinum fimm til ellefu ára.


Tengdar fréttir

Ekkert fullbólusett barn smitast hér á landi

Ekkert fullbólusett barn á aldrinum tólf til fimmtán ára hefur greinst smitað af Covid-19 hér á landi en þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Er það í takt við rannsókir sem gerðar voru með bóluefni Pfizer þar sem vörnin reyndist 100 prósent.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.