Fótbolti

Sér­fræðingar pirraðir út í óbólu­settan Kimmich

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óbólusettur Kimmich skýtur að marki í leik í Meistaradeild Evrópu fyrr á leiktíðinni.
Óbólusettur Kimmich skýtur að marki í leik í Meistaradeild Evrópu fyrr á leiktíðinni. EPA-EFE/Lukas Barth-Tuttas

Joshua Kimmich, miðjumaður Þýskalandsmeistara Bayern München og þýska landsliðsins, viðurkenndi á dögunum að hann væri óbólusettur. Hann hefur fengið skammir í hattinn frá heilbrigðisyfirvöldum þar í landi sem og fyrrum landsliðsmanni Þýskalands.

Hinn 26 ára gamli Kimmich er af mörgum talinn einn besti miðjumaður dagsins í dag. Hann er í lykilhlutverki bæði hjá félagsliði sínu sem og landsliði. Það vakti því mikla athygli þegar hann sagðist ekki vera bólusettur. Ástæðan var sú að hann sagði að það væri ekki búið að rannsaka langtímaáhrif bólusetninga.

Kimmich segist fara eftir sóttvarnareglum, fara í skimun á tveggja til þriggja daga fresti. Hann vill þó meina að allir eigi rétt á að taka eigin ákvörðun út frá sínum forsendum.

Ónæmisfræðingar í Þýskalandi telja að almennur misskilningur ríki meðal almennings varðandi það hvernig bólusetningar virka. Telja þeir að ummæli Kimmich ýti undir slíkan misskilning.

Þá hefur Kimmich einnig verið gagnrýndur af Dietmar Hamann, fyrrum leikmanni Liverpool sem og þýska landsliðsins. Hann bendir á að óbólusettur einstaklingur sé líklegri til að smitast og smita aðra heldur en bólusettur einstaklingur.

Hamann benti einnig á að til þess að komast á knattspyrnuvöll í Þýskalandi þyrfti stuðningsfólk að sýna fram á bólusetningar- eða mótefnavottorð. Það væri því fremur undarlegt ef eina óbólusetta fólkið væri það sem væri inn á vellinum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.