Innlent

Við­búnaður um helgina vegna bilunar í hreyfli breskrar her­flug­vélar

Atli Ísleifsson skrifar
Vélin lenti heilu og höldnu.
Vélin lenti heilu og höldnu. Vísir/Vilhelm

Gult óvissustig var sett í gang á Keflavíkurflugvelli um helgina þegar bresk herflugvél sendi neyðarboð vegna bilunar í hreyfli.

Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar er tekið fram að vélinni, þar sem í voru níu manns, hafi verið lent heilu og höldnu. Ekki er nánar tekið fram hvenær atvikið átt sér stað.

Í skeytinu segir einnig frá því að piltur sem lögreglan á Suðurnesjum hafi haft afskipti af um helgina hafi reynst vera með kannabis og hníf í fórum sínum. „Hann afsalaði sér hvoru tveggja til eyðingar.“

Töluvert var um hávaðaútköll um helginni hjá lögreglunni í umdæminu og þá voru nokkrir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. „Sá sem hraðast ók mældist á 150 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km. Skráningarnúmer voru fjarlægð af fimm bifreiðum sem ýmist voru ótryggðar eða óskoðaðar. Höfð voru afskipti af ökumönnum sem óku án réttinda og hafði einn þeirra verið stöðvaður áður af sömu sökum.“

Ennfremur segir frá því að hópur ökumanna hafi verið saman kominn í bílum sínum við Selvík þar sem þeir höfðu verið í spyrnu. Þeir hafi farið burt fljótlega eftir að lögregla mætti á svæðið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×