Erlent

Fundur aðals­mannsins Khuwy kallar á endur­ritun sögu­bóka Egypta­lands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Khuwy var aðalsmaður sem var uppi fyrir 4.000 árum.
Khuwy var aðalsmaður sem var uppi fyrir 4.000 árum. Ian Glatt/National Geographic/Windfall Films

Rannsókn á múmíu sem fannst í grafborginni í Saqqara í Egyptalandi bendir til þess að endurrita þarf sögu múmíugerðar í Forn-Egyptalandi. Þá vekur hún spurningar um það sem menn töldu sig vita um Gamla ríkið.

Múmía aðalsmannsins Khuwy fannst árið 2019 og var í fyrstu talinn vera um 3.000 ára gömul. Rannsóknir leiddu hins vegar í ljós að hún virðist vera um 4.000 ára gömul og tilheyra tímabili þar sem menn töldu að múmíugerð hefði verð fremur frumstæð.

Það sem kemur sérfræðingum á óvart er að Khuwy er þvert á móti afar vel varðveittur; allur líkaminn baðaður kvoðu til varðveislu og vafinn í fíngert lín. Þetta kollvarpar þeirri vitneskju sem menn töldu sig hafa um Gamla ríkið, til dæmis að þá hafi þekking á notkun kvoðu, eða resíns, verið takmörkuð og líffærin sjaldan fjarlægð og varðveitt sérstaklega.

„Ef þetta er sannarlega múmía frá Gamla ríkinu þarf að endurskoða allar bækur um múmíugerð og sögu Gamla ríkisins,“ segir Salima Ikram, yfirmaður egypskra fræða við American University í Kaíró og einn helsti sérfræðingur heims í sögu múmíugerðar.

Hún segir tilvist múmíu Khuwy ekki bara sýna fram á að Egyptar hefðu haft góða þekkingu á varðveislu líkamsleifa fyrr en áður var talið heldur þurfi að endurskoða sögu Gamla ríkisins með tilliti til þeirra efna sem notuð voru, meðal annars í tengslum við verslunarleiðir.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×