Erlent

Staðfestu að víkingar voru í Ameríku fyrir sléttum þúsund árum

Samúel Karl Ólason skrifar
Langhús sem reist hefur verið í L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.
Langhús sem reist hefur verið í L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. Getty/DeAgostini

Alþjóðlegt teymi vísindamanna hefur staðfest að víkingar frá Grænlandi numu land á Nýfundnalandi fyrir nákvæmlega þúsund árum síðan. Lengi hefur verið vitað að víkingar fundu Norður-Ameríku en ekki nákvæmlega hvenær.

Það hefur verið staðfest með fornleifauppgreftri í L‘Anse aux Meadows á Nýfundnalandi að víkingar voru í Norður-Ameríku um árið 1000.

Nú hefur verið staðfest að víkingar bjuggu í L‘Anse Aux Meadows árið 1021, fyrir sléttum þúsund árum. Það er 471 ári áður en Christofer Kólumbus sigldi yfir Atlantshafið og „fann“ Ameríku.

Í síðasta mánuði birti latínuprófessorinn Paolo Chiesa grein um þá uppgötvun sína að ítalskur prestur hefði vitað um tilvist Norður-Ameríku um miðja fjórtándu öld, eða um 150 árum fyrir ferð Kólumbusar.

Í grein sem birtist í Nature í dag segja vísindamenn að þeir hafi aldursgreint timbur sem fannst í L‘Anse aux Meadows. Með því að greina timbur úr þremur mismunandi trjám og taka mið af því þegar mikil sólargeislun barst til jarðar í sólargosi árið 993 var hægt að finna nákvæmari tímasetningar en áður hefur verið hægt.

Öll tréin þrjú reyndust hafa verið felld árið 1021.

Áhugasamir geta lesið nánar um aðferðir vísindamannanna hér.

Í greininni kemur fram að talið sé að Norrænir menn hafi haldið til á Nýfundnalandi í þrjú til þrettán ár. Eftir það hafi þeir snúið aftur til Grænlands. Mest hafi um hundrað manns búið í L´Anse Aux Meadows.

Sjá einnig: Tóftirnar í Kanada passa við lýsingar í Vínlandssögunum

Fyrir nokkrum árum heimsótti Kristján Már Unnarsson L'Anes Aux Meadows fyrir þættina Landnemarnir. Hann ræddi einnig við sænska fornleifafræðinginn Birgitta Wallace sem sagðist sannfærð um að sjálfur Leifur Eiríksson hefði reist búðirnar á Nýfundnalandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×