Erlent

Elísabet fer að ráðum lækna og hættir við heimsókn til Norður-Írlands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það vakti athygli að Elísabet gekk við staf í gær en hún virtist að öðru leiti við góða heilsu.
Það vakti athygli að Elísabet gekk við staf í gær en hún virtist að öðru leiti við góða heilsu. AP/Frank Augstein

Elísabet Englandsdrottning hefur ákveðið að fara að ráðum lækna og hætta við fyrirhugaða heimsókn til Norður-Írlands. Mun hún nota næstu daga til að hvílast, samkvæmt yfirlýsingu frá Buckingham-höll.

Elísabet, sem er 95 ára, dvelur nú í Windsor-kastala en er sögð ákveðin í að sækja COP21 loftslagsráðstefnuna í Glasgow síðar í mánuðinum. Þá er sagt liggja vel á drottningunni en það séu vonbrigði að hafa þurft að falla frá heimsókninni til Norður-Írlands.

Til stóð að hún hæfist á morgun.

Elísabet hefur verið önnum kafin síðustu daga og stóð meðal annars fyrir alþjóðlegri fjárfestingaráðstefnu í gærkvöldi. Fyrr um daginn átti hún fjarfund með japanska sendiherranum Hajime Hayashi og Joao de Almeida, sendiherra Evrópusambandsins.

Á mánudag ræddi hún við nýjan fulltrúa sinn á Nýja-Sjálandi, Cindy Kiro, og um helgina sótti hún veðreiðar á Ascot. 

Í gær var greint frá því að drottningin hefði hafnað Gamalmenni ársins-verðlaununum (e. Oldie of the Year award), sem eru veitt af samnefndu tímariti.

Ráðleggingar lækna drottningarinnar eru ekki sagðar tengjast Covid-19. Það vakti athygli að Elísabet gekk við staf í gær, í fyrsta sinn í langan tíma, en hún virtist að öðru leiti við góða heilsu.

Drottningin heimsótti Norður-Írland fyrst árið 1945, stuttu eftir endalok seinni heimstyrjaldarinnar, en þetta hefði orðið 26. heimsókn hennar þangað.

BBC greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.