Erlent

Krefjast milljarða í lausnar­gjald fyrir banda­rísku trú­boðana

Kjartan Kjartansson skrifar
Hörð mótmæli brutust út á Haítí í gær í kjölfar mannránana þar um helgina. Mótmælendur eru ósáttir við að búa við slíkt öryggisleysi.
Hörð mótmæli brutust út á Haítí í gær í kjölfar mannránana þar um helgina. Mótmælendur eru ósáttir við að búa við slíkt öryggisleysi. AP/Joseph Odelyn

Glæpagengi sem rændi sautján bandarískum trúboðum á Haítí um helgina krefst milljónar dollara í lausnargjald fyrir hvern og einn þeirra, samtals jafnvirði tæplega 2,2 milljarða íslenskra króna.

Dómsmálaráðherra Haítí greindi frá kröfu glæpagengisins 400 Mazowo í dag. Gengið er alræmt fyrir mannrán og að krefjast lausnargjalds fyrir gísla. Gengið rændi hópi kaþólskra presta í apríl. Þeim var sleppt á endanum en ekki er ljóst hvort að lausnargjald var greitt fyrir þá, að sögn breska ríkisútvarpins BBC.

Sextán trúboðanna eru bandarískir ríkisborgarar en einn er kanadískur. Í hópnum eru fimm karlar, sjö konur og fimm börn. Yngsta barnið er sagt tveggja ára gamalt. Fólkið er á vegum kristilegra hjálparsamtaka frá Ohio í Bandaríkjunum sem veitir börnum á Haítí húsaskjól, mat og föt.

Fólkinu var rænt þegar það kom úr heimsókn í munaðarleysingjahæli í bænum Ganthier, austur af höfuðborginni Port-au-Prince, á laugardag. Gengið ræður því sem það vill ráða á þeim slóðum.

Hvíta húsið sagði í gær að utanríkisráðuneytið og alríkislögreglan ynnu með yfirvöldum á Haítí að lausn málsins.

Glundroði hefur ríkt á Haítí undanfarin misseri. Forseti landsins var ráðinn af dögum í sumar og fleiri en 2.200 manns fórust í stórum jarðskjálfta í ágúst.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×