Erlent

Lofts­lags­á­ætlun Bidens í vanda

Árni Sæberg skrifar
Joe Biden var harðorður í garð repúblikana á Bandaríkjaþingi í ávarpi í Hvíta húsinu í dag.
Joe Biden var harðorður í garð repúblikana á Bandaríkjaþingi í ávarpi í Hvíta húsinu í dag. AP/Evan Vucci

Metnaðarfull loftslagsaðgerðaáætlun Joes Biden Bandaríkjaforseta virðist vera að sigla í strand. Fjármögnun orkuskipta, sem var einn burðarstólpa áætlunarinnar, verður líklega felld út úr fjárlagafrumvarpi sem nú er í meðferð í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Að sögn The New York Times vinna starfsmenn Hvíta hússins nú að breytingum á fjárlagafrumvarpinu vegna andstöðu öldungadeildarþingmannsins Joe Manchin við það.

Manchin er miðjumaður sem er fulltrúi Vestur-Virginíufylkis en kolaiðnaður er ríkinu mikilvægur. Sökum lítils meirihluta Demókrata á þinginu þarf forsetinn stuðning hvers einasta Demókrata til að koma frumvörpum í gegnum þingið.

„Manchin hefur talað opinberlega um áhyggjur sínar af því að greiða einkafyrirtækjum peninga skattgreiðenda fyrir eitthvað sem þau eru að gera nú þegar,“ segir Sam Runyon, talsmaður Manchins, við Reuters.

„Hann heldur áfram stuðningi við baráttuna gegn loftslagsbreytingum á meðan hann ver sjálfstæði Bandaríkjanna í orkumálum og tryggir stöðugleika í orkumálum,“ bætir hann við.

Biden er í erfiðri stöðu

Auk Manchins hefur öldungardeildarþingmaðurinn Kyrsten Sinema mótmælt eyrnamerkingu Bidens á þremur og hálfri billjón (e. trillion) Bandaríkjadala til félags- og umhverfismála. 

Biden þarf því að finna jafnvægi milli kostnaðar og aðgerða til þess að forðast klofning í Demókrataflokknum. Frjálslyndari þingmenn flokksins hafa farið fram á að forsetinn standi við kosningaloforð sín í umhverfismálum.

Biden hefur þegar stungið upp á því að lækka fjárframlög til málaflokksins úr þremur og hálfri billjón í tvær billjónir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.