Erlent

Skjóta geimfari af stað í tólf ára leiðangur

Samúel Karl Ólason skrifar
Áætlað er að Lucy nái til fyrsta smástirnisins árið 2025.
Áætlað er að Lucy nái til fyrsta smástirnisins árið 2025. NASA

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) munu í dag skjóta geimfarinu Lucy af stað í tólf ára leiðangur. Þetta er í fyrsta sinn sem geimfar er sent til Smástirnabeltisins svokallaða í þeim tilgangi að rannsaka þau og á Lucy að auka þekkingu vísindamanna á uppruna sólkerfisins.

Nafn Lucy er tilvísun í nafnið sem steingervingar fornföður mannkynsins sem varpaði einstakri innsýn í þróun mannsins. Geimfarið á að gera það sama um þróun sólkerfisins, samkvæmt vef NASA.

Smástirni þessi svífa um sólkerfið á svæðum sem kallast Lagrange-punktar. Í stuttu máli sagt eru lagrange-punktar svæði þar sem þyngdarkraftar jafnast út milli pláneta. Þessi svæði má finna víða í sólkerfinu sem smástirnabeltið er nærri Júpíter.

Hér má sjá hvernig Lucy verður flogið fram og til baka um sólkerfið á næstu tólf árum.NASA

Vitað er að smástirnin við Júpíter hafa verið þar mjög lengi og jafnvel frá því sólkerfið varð til. Lucy mun heimsækja og rannsaka sjö af þúsundum smástirna. Áætlað er að geimfarið nái til fyrsta smástirnisins árið 2025.

Hér má sjá myndræna útskýringu NASA á Legrange-punktunum og ferðalagi Lucy.

Eins og áður segir á Lucy að varpa ljósi á uppruna sólkerfisins en smástirnin sem geimfarið mun rannsaka eru talin vera úr sama efni og mynduðu Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Þau séu nokkurs konar tímahylki frá því sólkerfið myndaðist fyrir rúmum fjórum milljörðum ára.

Smástirnin eru ekki eins á litinn og útlit fyrir að þau séu úr mismunandi efnum. Það þykir vísbending um að þau hafi mögulega borist annars staðar úr sólkerfinu og orðið föst á sporbraut Júpíters.

Lucy mun kortleggja yfirborð þeirra smástirna sem hún heimsækir og greina efnasamsetningu yfirborðs þeirra. Hún mun skoða hvort þar finnist ís, lífræn efni og málmar og áætla massa smástirnanna. Geimfarið verður einnig notað til að kanna hvort smástirnin sjálf séu með hringa eins og Júpíter eða aðra hluti á sporbraut.

Áhugasamir morgunhanar munu geta fylgst með geimskotinu í beinni útsendingu hér að neðan. Áætlað er að skjóta Lucy af stað um klukkan hálf níu í fyrramálið frá Flórída. Notast verður við Atlas V 401 eldflaug United Launch Alliance til að koma Lucy af stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×