Íslenski boltinn

Sáttur sama hvernig úrslitaleikurinn fer

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Garðar Gunnlaugsson fagnar marki sínu í bikarúrslitaleik ÍA og FH fyrir átján árum.
Garðar Gunnlaugsson fagnar marki sínu í bikarúrslitaleik ÍA og FH fyrir átján árum.

Maðurinn sem tryggði Skagamönnum sinn síðasta stóra titil verður ánægður sama hvernig bikarúrslitaleikur ÍA og Víkings í dag fer.

Garðar Gunnlaugsson skoraði eina mark bikarúrslitaleiksins 2003 þegar ÍA vann FH. Síðan þá hafa Skagamenn ekki unnið stóran titil. En þeir fá tækifæri til að breyta því í dag þegar þeir mæta Víkingi í úrslitaleik Mjólkurbikarsins.

Garðar er Skagamaður og einn markahæsti leikmaður í sögu ÍA. En hann ber líka taugar til nýkrýndra Íslandsmeistara Víkings enda er bróðir hans, Arnar, þjálfari þeirra. Garðar verður því ánægður sama hvernig bikarúrslitaleikurinn fer.

„Jú, í rauninni. Þetta er samt voðalega erfitt, uppeldisfélagið á móti stóra bróður, þannig að það eru tilfinningar í báðar áttir,“ sagði Garðar í samtali við Vísi.

En heldur hann með öðru liðinu frekar en hinu?

„Ég held ég viti það ekki fyrr en leikurinn byrjar. Sjáum til þegar einhver skorar, með hvorum ég fagna. Þetta er voðalega flókið,“ svaraði Garðar.

Viðtal við Garðar úr DV 29. september 2003.

ÍA er að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik í átján ár, eða síðan Garðar tryggði Skagamönnum sigurinn á FH-ingum 2003.

„Þetta er risastórt. Við höfum ekki einu sinni komist í undanúrslit síðan þá. Þetta er frábær endir á þessum frábæra spretti sem þeir hafa verið á,“ sagði Garðar og vísaði til þess að ÍA bjargaði sér frá falli úr Pepsi Max-deildinni með því að vinna síðustu þrjá leiki sína.

„Það er hægt að líta á þetta sem ákveðin sigur fyrir félagið, sama hvernig leikurinn fer, þótt það væri risastórt fyrir ÍA að vinna titilinn.“

Tvö heitustu liðin

Þrátt fyrir að Víkingar hafi orðið Íslandsmeistarar segir Garðar að Skagamenn eigi góða möguleika í bikarúrslitaleiknum.

„Þetta eru tvö heitustu liðin sem mætast. Þetta er líka bikarinn og þar er allt mögulegt,“ sagði Garðar.

Einn slakasti leikur sem ég hef spilað

Hann man vel eftir bikarúrslitaleiknum fyrir átján árum. Að hans sögn var frammistaða hans ekki upp á marga fiska en markið eftirminnilegt. Garðar fylgdi þá eftir skoti Kára Steins Reynissonar sem Daði Lárusson varði. Markið kom tíu mínútum fyrir leikslok.

Klippa: Mark Garðars í bikarúrslitaleiknum 2003

„Þetta er einn slakasti leikur sem ég hef spilað á ævinni og ég bjóst við að vera tekinn út af með hverri mínútu sem leið í seinni hálfleik. En Óli karlinn [Ólafur Þórðarson, þjálfari ÍA] hafði mig inn á og það borgaði sig,“ sagði Garðar og bætti við að umrætt mark væri hans stærsta á ferlinum.

Arnar uppskorið eins og hann hefur sáð

Hann segir að það hafi verið frábært að fylgjast með velgengni Víkinga í sumar, undir stjórn stóra bróðurs.

„Það er búið að vera æðislegt. Og hann uppsker eins og hann hefur sáð í þessu starfi. Hann leggur gríðarlega mikla vinnu á sig og er vel undirbúinn fyrir alla leiki. Svo er spilamennska liðsins flott og jákvæð og menn eru sáttir að spila þarna. Þetta er bæði skemmtilegur og árangursríkur fótbolti sem er erfið blanda að ná,“ sagði Garðar.

En hvar stendur fjölskylda Garðars að málum þegar kemur að bikarúrslitaleiknum?

„Við erum búin að ræða þetta svolítið og þetta er „win, win“. Foreldrar mínir hafa unnið mikla sjálfboðavinnu fyrir ÍA og eru mjög tengd félaginu. Þetta endar eiginlega alltaf vel,“ sagði Garðar að lokum.

Leikur ÍA og Víkings hefst klukkan 15:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 14:15.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.