Erlent

Bogmaðurinn vistaður á heilbrigðisstofnun

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar í Kongsberg hafa lagt blóm og kerti í miðborginni til minningar um fórnarlömb árásarinnar.
Íbúar í Kongsberg hafa lagt blóm og kerti í miðborginni til minningar um fórnarlömb árásarinnar. Vísir/EPA

Ákvörðun var tekin í gær um að vista karlmann sem varð fimm manns að bana í Kongsberg í Noregi á heilbrigðisstofnun. Lögregla krefst fjögurra vikna gæsluvarðhalds yfir honum.

Ann Irén Svane Mathiassen, lögfræðingur lögreglunnar, segir norska ríkisútvarpinu að ákvörðunin hafi verið tekin eftir að maðurinn var skoðaður. Vistun hans á heilbrigðisstofnun hafi engin áhrif á gæsluvarðhaldskröfu sem tekin var fyrir klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma.

„Þetta hefur aðeins þýðingu fyrir hvar hann verður vistaður á meðan hann er í haldi,“ segir hún.

Esper Andersen Bråthen, 37 ára gamall Dani sem var búsettur í Kongsberg, hefur játað að hafa myrt fimm manns á miðvikudagskvöld. Hann skaut meðal annars fólk með boga og örvum í verslun en braust einnig inn í íbúð og framdi morð þar.

Lögreglan krefst fjögurra vikna gæsluvarðhalds yfir Bråthen og að hann verði látinn sæta bréfa- og heimsóknarbanni. Hann verði í einangrun og fjölmiðlabanni fyrstu tvær vikurnar.

Ekkert bendir til þess að Bråthen hafi skipulagt árásina fyrir fram, að sögn lögreglu. Ekkert hafi heldur komið fram sem bendi til þess að eitthvað hafi gerst í versluninni sem hratt atburðarásinni af stað.

Virtist ekki vita mikið um trúna þegar hann heimsótti moskuna

Komið hefur fram að Bråthen snerist til íslamstrúar og höfðu lögreglu borist ábendingar um að hann hefði hneigst að öfgahyggju. Hann var með nokkra dóma á bakinu og var úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart tveimur nánum ættingjum eftir að hann hótaði öðrum þeirra lífláti í fyrra.

Oussama Tlili, stjórnarformaður Íslamsks menningarseturs í Kongsberg, segir að Bråthen hafi heimsótt mosku í borginni nokkrum sinnum fyrir fjórum til fimm árum. Hann hafi ekki komið til að biðja og ekki virst vita mikið um trúna.

„Hann vildi greina frá einhvers konar opinberun sem hann hafði fengið og vildi að ég hjálpaði honum að koma henni á framfæri. Ég útskýrði fyrir honum að ég gæti ekki hjálpað honum með það,“ segir Tlili við NRK.

Bråthen hafi ekki verið ógnandi og ekki virst öfgasinnaður. Tlili segir að sér hafi virst að hann þyrfti mögulega á hjálp að halda. Hann hafi íhugað að láta lögreglu vita af honum en á endanum taldi hann sig ekki hafa neitt í höndunum til þess.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.