Erlent

Ís­lendingur í Kongs­berg sleginn eftir árás boga­mannsins

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Elsa Giljan ásamt Jónari, syni sínum.
Elsa Giljan ásamt Jónari, syni sínum. Aðsend

Guðrún Elsa Giljan Kristjánsdóttir, íbúi í Kongsberg í Noregi, segir samfélagið í sjokki eftir að minnst fimm létust og nokkrir særðust í árás bogamanns í bænum í kvöld. Árásarmaðurinn hefur verið handtekinn og virðist hafa verið einn að verki.

Elsa fékk fréttirnar frá syni sínum, Jónari, en hann tilkynnti henni að maður væri að skjóta á fólk með boga og örvum. Símtalið fékk hún rúmum hálftíma eftir að lögregla var mætt á staðinn en sonur hennar flýtti sér heim. Hann var aðeins um hundrað og fimmtíu metra frá svæði þar sem árásarmaðurinn hafði verið.

„Hann hringir í mig hérna neðst í götunni og segir við mig: Mamma varstu búinn að heyra það, það er einhver að skjóta á fólk með örvum og boga,“ segir Elsa í samtali við fréttastofu.

„Ég held að fólk sé að ná suðupunktinum núna. Nú er þetta að „synca“ inn og það sem er að gerast núna að það er óvissa með skólahald á morgun. Þetta er ekki stór bær,“ segir Elsa.

Stóru svæði hefur verið lokað í bænum og er sérstök rannsóknardeild hryðjuverka að störfum. Að sögn Elsu vinnur lögregla að því að rekja ferðir árásarmannsins. Fólk hefur verið beðið um að vera heima og einhverjir hafa þurft að leita sér gistingar á hótelum í bænum.

Áfallið mikið í svo litlu samfélagi

Rúmlega tuttugu og sex þúsund manns búa í Kongsberg og telur Elsa að yfir hundrað Íslendingar séu búsettir á svæðinu; bæði í bænum og þar í kring. Elsa segir til samlíkingar að ákveðin lægð hafi legið yfir bænum eftir dauðsfall tveggja aðila á eldri árum í síðasta mánuði. Áfallið sé mikið í svo litlu samfélagi.

Enn er með öllu óljóst hvað árásarmanninum gekk til en óhjákvæmilega minnir þetta Norðmenn á voðaverkin í Útey fyrir rúmum áratug. 

„Maður er bara svo ofboðslega hræddur um að þetta sé eitthvað annað svona Breiviksdæmi,“ segir Elsa.


Tengdar fréttir

Lögreglan útilokar ekki hryðjuverk

Minnst fimm létust og nokkrir eru særðir eftir árás bogamanns í norska bænum Kongsberg í kvöld. Árásarmaðurinn var handtekinn í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu. Lögreglan útilokar ekki að um hryðjuverk hafi verið að ræða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.