Innlent

Eitt barn lagt inn með blóð­tappa og annað með fjöl­kerfa­bólgu­sjúk­dóm

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þrjú börn hafa verið lögð inn vegna Covid-19 í september og október.
Þrjú börn hafa verið lögð inn vegna Covid-19 í september og október.

Börn sem eru of ung til að fá bólusetningu eru 40 prósent einstaklinga í einangrun en innan við 15 prósent íbúa landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landlæknisembættisins.

Þar segir að í september og október hafi þrjú börn verið lögð inn á Barnaspítala Hringsins með alvarlega fylgikvilla Covid-19. Eitt var undir 5 ára en tvö á aldrinum 12 til 15 ára.

„Eitt barn lagðist inn á gjörgæslu með alvarlega bakteríulungnabólgu í kjölfar COVID-19 sýkingar. Tvö börn hafa lagst inn á almenna deild, annað með blóðtappa og hitt með fjölkerfabólgusjúkdóm (MIS-C). Hlutfall innlagna hjá börnum <16 ára aldri sem greinst hafa með COVID-19 í þessari delta bylgju er þá 0,4%,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að fjórar vikur séu nú liðnar frá því að 12 til 15 ára voru bólusett með seinni skammtinum af bóluefninu frá Pfizer. Fáar tilkynningar hafi borist um alvarlegar aukaverkanir en eitt tilvik hjartabólgu hafi verið staðfest á Barnaspítalanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×