Enski boltinn

Fé­lög úrvalsdeildarinnar heimta krísu­fund vegna yfir­töku New­cast­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Allan Saint-Maximin og liðsfélagar í Newcastle United eru komnir með nýja eigendur.
Allan Saint-Maximin og liðsfélagar í Newcastle United eru komnir með nýja eigendur. Ian MacNicol/Getty Images

Félög ensku úrvalsdeildarinnar eru vægast sagt ósátt með yfirtöku Newcastle United en Mike Ashley seldi félagið á dögunum. Hin 19 félög deildarinnar vilja krísufund með forráðamönnum deildarinnar þar sem þau telja að nýir eigendur geti haft slæm áhrif á ímynd deildarinnar.

Samkvæmt frétt The Guardian um málið vilja félög deildarinnar fá að vita af hverju yfirtaka Sádanna fékk allt í einu að ganga í gegn og það svo auðveldlega. 

Í mars á síðasta ári fóru orðrómar á kreik að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu hefði áhuga á að kaupa Newcastle United. Það gekk ekki eftir og var tilboðið dregið til baka fjórum mánuðum síðar.

Nú hafa kaup Opinbera fjárfestingasjóðsins (PIF), sádiarabísks sjóðs sem krónprinsinn stýrir, á Newcastle verið staðfest. Á PIF nú 80 prósent hlut í félaginu. 

Félög ensku úrvalsdeildarinnar telja að nýir eigendur Newcastle geti skaðað ímynd deildarinnar en áðurnefndur krónprins, Mohammed bin Salman, stóð að baki morði blaðamannsins Jamals Khashoggi fyrir þremur árum síðan en lík hans hefur aldrei fundist.

Forráðamenn annarra liða í deildinni eru ósátt með að hafa ekki fengið að vita að möguleg yfirtaka á Newcastle yrði leyfð. Málið var ekki tekið upp á fundi deildarinnar með forráðamönnum liðanna fyrir tveimur vikum síðar.

Á fimmtudaginn voru kaupin hins vegar staðfest og Newcastle United á nú ríkustu eigendur í heimsfótbolta. 

Þó svo að forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafi fengið loforð þess efnis að ríkisstjórn Sádi-Arabíu muni ekki skipta sér af liðinu má reikna með að hún muni dæla peningum í félagið.

Það mun að öllum líkindum koma í ljós um leið og félagaskiptaglugginn í janúar opnar.


Tengdar fréttir

Bruce býst við að vera rekinn

Næsti leikur Steves Bruce verður hans þúsundasti á stjóraferlinum. Hann er ekkert endilega viss um að hann nái þeim áfanga sem stjóri Newcastle United.

Newcastle komið í eigu Sádi-Araba

Yfirtöku sádi-arabíska sjóðsins PIF á enska knattspyrnufélaginu Newcastle er nú lokið. Sjóðurinn hefur keypt 80% hlut í félaginu sem verið hafði í eigu Mike Ashley síðastliðin 14 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×