Erlent

Siggi nýnasisti látinn

Snorri Másson skrifar
Siggi, til hægri, á mótmælum í Bielefeld árið 2018, þar sem nýnasistar sýndu samstöðu með hinni 90 ára gömlu Úrsúlu Haverbeck, sem var dæmd fyrir að afneita helförinni.
Siggi, til hægri, á mótmælum í Bielefeld árið 2018, þar sem nýnasistar sýndu samstöðu með hinni 90 ára gömlu Úrsúlu Haverbeck, sem var dæmd fyrir að afneita helförinni. Getty/Finn Grohmann

Greint er frá andláti þýsks nýnasista í þýskum miðlum í dag, að nafni Siegfried Borchardt. Hann var landsþekktur sem „SS-Siggi“ og hefur löngum verið eitt helsta andlit þýskra nýnasista.

Borchardt lést 67 ára gamall eftir stutta sjúkrahúsinnlögn, eins og flokkur hans Die Rechte (ísl. Hægrið) greindi frá í yfirlýsingu. Sá flokkur er róttækara klofningsbrot úr AfD, sem er fyrir sitt leyti öfgaflokkur á hægrivæng.

„SS-Siggi“ átti langan feril að baki sem opinber nýnasisti. Á áttunda áratugnum fór hann fyrir Borussenfront, sem var nýnasísk hreyfing fótboltabulla og stuðningsmanna Borussia Dortmund. Þar tók hann þátt í ofsóknum á hendur minnihlutahópum eins og svartra og gyðinga og var margsinnis handtekinn fyrir óspektir.

Ísrael er okkar ólán, segir á skiltum öfgaflokksins, sem hefur mótmælt harkalega stefnu Ísraelsríkis um að skapa gyðingum öruggt athvarf í Ísrael. Siggi er í rauðum bol fyrir miðju.David Speier/NurPhoto via Getty Images

Í viðtali við Spiegel árið 2014 var Siggi spurður út í gælunafnið „SS-Siggi“. Þar sagðist hann ekki sáttur við að vera kenndur við SS, sem sagt stormsveitir nasista, heldur grínaðist hann með að vilja raunar heldur vera kallaður „SA-Siggi“ og vera þannig kenndur við brúnstakka, sem var önnur eining innan nasistaflokks Hitlers.

Sama ár rataði það í heimsfréttirnar þegar Siggi náði inn í borgarstjórn í Dortmund sem fulltrúi flokks síns, en vegna heiftúðugra mótmæla gegn setu hans þar hrökklaðist hann úr embætti tveimur mánuðum síðar. Á stefnuskrá flokksins í þeim kosningum var meðal annars að stöðva „innrás hælisleitenda“ og að koma því þannig fyrir aftur að hjónaband yrði aðeins á milli karls og konu.

Síðast sat Siggi inni í nokkra mánuði árið 2018 fyrir að svívirða lögregluþjóna á mótmælum. Die Rechte er ekki með kjörinn fulltrúa á þýska þinginu en er enn með fulltrúa í sveitarstjórn Dortmund.

„Við berjumst fyrir Þýskaland,“ stendur á fánanum á bakvið nýnasistaleiðtogann.Yavuz Arslan/ullstein bild via Getty Images)


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×