Enski boltinn

Park biður stuðningsmenn United að hætta að syngja hundakjötssönginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ji-Sung Park naut mikillar hylli meðal stuðningsmanna Manchester United.
Ji-Sung Park naut mikillar hylli meðal stuðningsmanna Manchester United. getty/Matthew Peters

Ji-sung Park hefur beðið stuðningsmenn Manchester United um að hætta að syngja lag um sig sem inniheldur niðrandi orð um Suður-Kóreumenn.

Park lék með United á árunum 2005-12 og var í miklum metum hjá stuðningsmönnum liðsins. Þeir syngja enn um hann en Park vill að þeir hætti því.

Í laginu er sungið um að Suður-Kóreumenn borði hundakjöt. Park fékk nóg eftir að hann heyrði stuðningsmenn United syngja lagið fyrir leikinn gegn Wolves þegar landi hans, Hwang Hee-chan, var kynntur sem nýr leikmaður Úlfanna.

„Það var mjög leiðinlegt fyrir hann að heyra þetta. Ég veit að stuðningsmönnunum gengur ekkert illt til en ég verð samt að biðja fólk um að hætta að nota þetta orð sem er móðgandi fyrir íbúa Suður-Kóreu,“ sagði Park.

„Þetta orð er mjög óþægilegt fyrir Suður-Kóreumenn og ég finn til með yngri leikmönnunum sem þurfa að heyra þetta. Margt hefur breyst í Suður-Kóreu. Það er satt að við borðuðum einu sinni hundakjöt en í dag hatar fólk þetta, sérstaklega yngri kynslóðin. Menningin hefur breyst. Ég bið stuðningsmennina um að hætta að syngja þetta orð. Það veldur Suður-Kóreumönnum óþægindum að heyra það. Nú er nóg komið.“

Manchester United hefur beðið stuðningsmenn liðsins að hlýða Park og hætta að syngja um hundakjötsátið.

Park varð fjórum sinnum Englandsmeistari með United og einu sinni Evrópumeistari. Hann varð fyrsti Asíubúinn til að vinna Meistaradeild Evrópu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.