Erlent

Kis­hida stað­festur í em­bætti for­sætis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 64 ára Fumio Kishida gegndi embætti utanríkisráðherra landsins á árunum 2012 til 2017
Hinn 64 ára Fumio Kishida gegndi embætti utanríkisráðherra landsins á árunum 2012 til 2017 EPA

Fumio Kishida hefur tekið við sem nýr forsætisráðherra Japans. Kishida var kjörinn formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins í síðustu viku og samþykkti meirihluti japanska þingsins Kishida svo sem forsætisráðherra í morgun.

Kishida tekur við embættinu af Yoshihide Suga sem tilkynnti í byrjun september að hann hugðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður stjórnarflokksins eftir um ár í embætti.

Mikill meirihluti þingmanna greiddi atkvæði með Kishida sem forsætisráðherra. 311 þingmenn greiddu atkvæði með Kishida, en 124 með tillögu um að stjórnarandstöðuleiðtoginn Yukio Edano yrði nýr forsætisráðherra. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er með hreinan meirihluta á japanska þinginu.

Fastlega er reiknað með að fjölmargir nýir ráðherrar muni koma inn í ríkisstjórn Kishida.

Hinn 64 ára Kishida gegndi embætti utanríkisráðherra landsins á árunum 2012 til 2017, auk þess að hafa setið á þingi frá árinu 1993 fyrir Hiroshima.

Kishida hefur talað fyrir nauðsyn þess að auka hagvöxt og fyrir breytingum á stefnu Japans í efnahagsmálum, þeirri sem Shinzo Abe, sem var forsætisráðherra landsins á árunum 2012 til 2020, lagði grunninn að. Vill Kishida meina að sú stefna þjóni fyrst og fremst stórfyrirtækjum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×