Enski boltinn

Gagn­rýnir fólk sem neitar að láta bólu­setja sig og líkir því við að keyra fullur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp liggur ekki á skoðunum sínum.
Klopp liggur ekki á skoðunum sínum. Gareth Copley/AP

Þjóðverjinn Jürgen Klopp, þjálfari enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hefur sent væna pillu á fólk sem neitar að láta bólusetja sig við kórónuveirunni. Líkir hann því við að keyra fullur þar sem þeir einstaklingar setja fjölda fólks í hættu með ákvörðun sinni.

Klopp sjálfur segist hafa ráðfært sig við sérfræðing um hvað væri best að gera varðandi Covid-19.

„Þannig virkar það: Þegar þú veist ekki hvað á að gera þá ráðfærir þú þig við sérfræðing sem segir þér hvað sé best að gera í tiltekinni stöðu. Það er ástæðan fyrir því að ég lét bólusetja mig, ég er í aldurshóp þar sem veiran gæti reynst erfið viðureignar og ég var mjög glaður þegar ég fékk bólusetninguna. Sérfræðingarnir segja að sem stendur sé bólusetning lausnin við vandamálinu,“ sagði Klopp í viðtali nýverið.

Þá gagnrýndi Klopp fólk sem neitar að láta bólusetja sig.

„Þetta er eins og að keyra fullur. Við höfum örugglega öll verið í aðstöðu þar sem við höfum fengið okkur bjór eða tvö og íhugað að keyra en vegna laganna þá megum við ekki keyra svo við keyrum ekki. Þessi lög eru ekki til að vernda mig þegar ég vil keyra eftir að hafa fengið mér tvo bjóra heldur til að vernda allt hitt fólkið á götunni.“

„Ég lét ekki bólusetja mig eingöngu til að vernda sjálfan mig. Ég gerði það einnig til að vernda allt fólkið í kringum mig. Ef ég læt ekki bólusetja mig og fæ Covid-19 þá er það mér að kenna, ef ég smita aðra er það líka mér að kenna en ekki þeim.“

Klopp vill opna umræðuna varðandi stöðu fólks er kemur að bólusetningu.

„Við megum ekki spyrja fólk hvort það sé bólusett en ég má spyrja leigubílstjóra hvort hann sé ölvaður. Ef ég mæti fullur til vinnu má senda mig heim eða sekta mig en við megum ekki spyrja fólk (hvort það sé bólusett). Kannski er ég svona barnalegur en ég bara skil þetta ekki.“

Liverpool tekur á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni síðar í dag. Þar fær Klopp að kljást við önnur vandamál heldur en þau sem tengjast kórónuveirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×