Fótbolti

Jóhannes Karl: Þetta er enginn draumur, þetta er að fara að verða að veruleika

Sverrir Mar Smárason skrifar
Jóhannes Karl var eðlilega sáttur með stórsigur sinna manna.
Jóhannes Karl var eðlilega sáttur með stórsigur sinna manna. Vísir/Bára Dröfn

Skagamenn komust í dag í úrslitaleik Mjólkurbikarsins eftir góðan 2-0 sigur gegn Keflavík. Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var glaður í leikslok.

„Tilfinningin er bara góð eins og sést hérna fyrir aftan mig. Þetta er bara geggjað og geggjaður dagur. Við ákváðum að keyra grimmt á Keflvíkingana til þess að byrja með og skoruðum snemma. Gísli Laxdal geggjaður í dag, frábær frammistaða hjá honum reyndar eins og hjá öllu liðinu. En þú veist, frammistaða skiptir engu máli við erum komnir í bikarúrslit sem er bara geggjað,“ sagði Jóhannes Karl strax í lok leiks.

Skagamenn skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik og sigldu svo heim sigrinum í þeim síðari.

„Við vörðumst virkilega vel og við erum búnir að spila núna tvo leiki á móti Keflavík. Joey Gibbs hefur ekki sést. Alex Davey og Óttar Bjarni búnir að vera geggjaðir sem og Sindri djúpur á miðju. Við erum búnir að vera frábærir varnarlega og Árni Marinó í markinu. Grimmd og ákefð og allt sem við ætlum að taka með okkur inn í úrslitaleikinn. Við erum ekkert að fara þangað til að gera neitt annað en að vinna hann,“ sagði Jóhannes Karl.

Það var virkilega vel mætt á leikinn á Akranesi í dag og stuðningurinn var mjög góður. Samfélagið á Skaganum virðist vera komið á bakvið liðið af miklum þunga og Skagamönnum er farið að dreyma aftur. Jóhannes Karl var stórorður.

„Þetta er enginn draumur, þetta er að fara að verða að veruleika. Stuðningsmennirnir eru hérna til að styðja við bakið á okkur og við erum að sýna að það skiptir okkur máli að hafa svona góða stuðningsmenn á bakvið okkur og við viljum vera allir saman í þessu, ein heild. Við ætlum að landa titli í ár,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×