Enski boltinn

Klopp býst við að Man. City ætli að svara fyrir sig á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool mennirnir Sadio Mane og Virgil van Dijk fagna einu markanna á Drekavöllum í gærkvöldi.
Liverpool mennirnir Sadio Mane og Virgil van Dijk fagna einu markanna á Drekavöllum í gærkvöldi. AP/Luis Vieira

Liverpool og Manchester City upplifðu ólík úrslit í Meistaradeildinni í gærkvöldi fimm dögum áður en þau mætast í ensku úrvalsdeildinni.

Á sama tíma og Liverpool vann 5-1 stórsigur á Porto þá tapaði Manchester City 2-0 á móti Paris Saint-Germain.

„Það er pottþétt að City ætlar að svara fyrir sig á Anfield,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir sigurinn í Portúgal.

„Við munum samt snúa aftur heim eftir nokkra leiki án áhorfendanna okkar. Við látum því vaða,“ sagði Klopp.

Liverpool mætir taplaust inn í leikinn á móti City og liðið leit vel út í stórsigrinum á Drekavöllum í gærkvöldi.

Klopp talaði samt um það að liðið þurfi að bæta ýmislegt hjá sér.

„Fyrst og fremst er mikilvægt að ná úrslitunum og þetta er mikilvægur sigur á útivelli á móti Porto. Sigurinn og hvernig við unnum leikinn gerir þetta enn betra,“ sagði Klopp.

„Það var fullt af góðum köflum hjá okkur. Við sáum að Porto hafði horft á síðasta leik okkar á móti Brentford. Þeir byrjuðu áræðnir. Ég vildi að menn leystu það inn á vellinum og kom skref fyrir skref,“ sagði Klopp.

„Við skoruðum engin stórkostleg mörk í fyrri hálfleik en þau voru mikilvæg. Við stjórnuðum leiknum í síðari hálfleik. Það er gott að komast á skrið en það hjálpar ekki eitt og sér á móti City. Við þurfum meira en bara góð úrslit í leiknum á undan,“ sagði Klopp.

„Við þurfum að spila betur en við gerðum í kvöld, það er alveg ljóst. Það verður líka allt annar leikur,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×