Enski boltinn

Gary Neville segir að Man. United vinni ekki neitt með þessa liðsheild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes og félagar í Manchester United þurfa að vinna betur saman sem eitt lið.
Bruno Fernandes og félagar í Manchester United þurfa að vinna betur saman sem eitt lið. AP/Jon Super

Manchester United goðsögnin Gary Neville býst við að sjá fleiri daga eins og á laugardaginn þegar liðið tapaði fyrir Aston Villa. Það verði svo á meðan liðið vinni ekki betur saman sem eitt lið.

Manchester United var taplaust í ensku úrvalsdeildinni þegar Aston Villa kom í heimsókn á Old Trafford um helgina og vann 1-0 sigur.

Stóra fréttin eftir leikinn var vítaklúður Bruno Fernandes í uppbótatíma en það var annað sem stakk í augum hjá Gary Neville.

Neville tjáði sig um frammistöðu United liðsins í hlaðvarpsþætti sínum.

„Ég sagði þetta líka þegar þeir voru að vinna leiki og Ronaldo var að skora. Þeir spila að mínu mati ekki nógu vel saman sem lið til vinna þessa deild,“ sagði Gary Neville.

„Þú verður að spila sem einn samheldin hópur, bæði þegar þú ert með boltann og þegar þú ert ekki með boltann. Þegar þú skilar þínu bara á ákveðnum mómentum þá er ljóst að slík móment falla oft ekki fyrir þig í vissum leikjum,“ sagði Neville.

„Þú þarft að spila á ákveðinn hátt og ég sé ennþá hóp af einstaklingum sem spila vel á stundum og vissulega má við og við sjá þessa samheldni og samvinnu,“ sagði Neville.

„Þetta er ennþá nýtt lið en þeir verða að þjappa sér betur saman og finn sinn rétta leikstíl. Með því geta menn náð í úrslit þótt menn spili ekki vel,“ sagði Neville.

„Ef þeir halda áfram á þessari braut þá koma alltaf dagar eins og sá á móti Aston Villa,“ sagði Neville.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.