Íslenski boltinn

Bikarinn verður miðja vegu á milli Víkinnar og Smárans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Ari Einarsson varð Íslandsmeistari með Val 2017 og 2018. Hann gæti orðið meistari með Breiðabliki á morgun.
Anton Ari Einarsson varð Íslandsmeistari með Val 2017 og 2018. Hann gæti orðið meistari með Breiðabliki á morgun. vísir/bára

Íslandsmeistarabikarinn fer annað hvort á loft á Víkingsvelli eða Kópavogsvelli. Á meðan leikjunum í lokaumferðinni í Pepsi Max-deild karla verður bikarinn í vörslu starfsmanns KSÍ á miðlægum stað.

Mikil spenna er fyrir lokaumferðina á morgun en tvö lið geta orðið Íslandsmeistarar, þrjú geta fallið og KA og KR berjast um 3. sætið sem gæti gefið þátttökurétt í Sambandsdeild Evrópu á næsta tímabili.

Víkingur er með eins stigs forskot á Breiðablik á toppi deildarinnar. Víkingur fær Leikni í heimsókn á morgun á meðan Breiðablik og HK mætast í Kópavogsslag.

Að sögn Ómars Smárasonar, samskiptastjóra KSÍ, verður viðbúnaður á bæði Víkings- og Kópavogsvelli, það er svið og bakgrunnur fyrir verðlaunaafhendingu.

Bikarinn sjálfur og gullmedalíur verða svo á miðlægum stað í vörslu starfsmanns KSÍ. Þegar úrslitin liggja fyrir brunar hann svo á þann völl þar sem bikarinn fer á loft.

Hvort sem bikarinn fer á loft í Víkinni eða Smáranum verður það í fyrsta sinn sem Íslandsmeistaratitill vinnst á hvorum stað. Breiðablik vann sinn eina Íslandsmeistaratitill í Garðabænum og síðast þegar Víkingur varð meistari var það í Garðinum. Þá kom bikarinn þangað í þyrlu.

Stöð 2 Sport verður með veglega dagskrá á morgun. Upphitun Pepsi Max stúkunnar hefst klukkan 13:00 og hægt verður að fylgjast með öllum leikjunum samtímis í þættinum. Þá verða allir leikirnir í lokaumferðinni sýndir beint og klukkan 20:00 er svo komið að uppgjörsþætti. Nánari upplýsingar um dagskrá morgundagsins má sjá með því að smella hér.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.