Umfjöllun: Stjarnan - KR 0-2 | KR-ingar tryggðu sér þriðja sætið og eiga enn von á Evrópusæti

Sverrir Mar Smárason skrifar
KR-ingurinn Pálmi Rafn Pálmason.
KR-ingurinn Pálmi Rafn Pálmason. Vísir/Hulda Margrét

Stjörnumenn fengu KR-inga í heimsókn í Garðabæinn í dag í lokaleik sínum í Pepsi-Max deild karla. KR-ingar tryggðu sér 3.sæti í deildinni með 2-0 sigri sem gæti gefið Evrópusæti ef Víkingur R. vinnur Mjólkurbikarinn.

Leikurinn var ansi hægur til að byrja með og lítið marktækt sem gerðist. Bæði liðin spiluðu ágætis fótbolta en mikið var um slakar sendingar og illa gekk að skapa sér færi.

Besta færi fyrri hálfleiks fékk fyrirliði KR, Óskar Örn Hauksson, eftir hornspyrnu frá Atla Sigurjónssyni. Boltinn alla leið á fjærstöng þar sem Óskar Örn skaut viðstöðulausu og föstu skoti að marki en Haraldur Björnsson varði vel.

Stefán Árni Geirsson fékk einnig gott færi rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar Kristján Flóki Finnbogason sendi góða sendingu yfir vörn Stjörnunnar og Stefán Árni í þröngu en góðu færi reyndi skot undir Harald í markinu en aftur varði Haraldur. Hálfleikstölur 0-0.

Inni í leikhléi virðist sem svo að KR-liðið hafi skoðað stöðuna í leik KA og FH fyrir norðan þar sem FH-ingar voru yfir. KR myndu þá með sigri tryggja sér 3.sæti. Þeir komu mun skarpari út í síðari hálfleikinn.

Á 54.mínútu komust KR-ingar yfir. Kristinn Jónsson átti þá góðan sprett að vítateig Stjörnumanna og náði að koma boltanum á Kristján Flóka sem sendi í fyrsta á Óskar Örn sem skoraði með föstu skoti og kom sínum mönnum yfir.

Lítið gerðist eftir markið áður en KR-ingar bættu við forystu sína á 73.mínútu. Þá átti Óskar Örn góðan sprett upp vinstri vænginn og inn í teig Stjörnumanna. Hann lagði svo boltann fyrir markið þar sem Kristján Flóki mætti og setti boltann auðveldlega yfir línuna. KR komnir í 2-0.

KR-liðið hélt boltanum mikið eftir markið en undir lok leiks bökkuðu þeir niður og leyfðu Stjörnunni að halda boltanum. Leikurinn fjaraði út og KR-ingar unnu góðan 2-0 sigur. KA gerðu 2-2 jafntefli við FH og KR-ingar enda því í 3.sæti deildarinnar. Stjörnumenn halda sínu 7.sæti eftir úrslit dagsins.

Af hverju vann KR?

Þeir voru skarpari í vítateig andstæðinganna. Skoruðu tvö góð mörk í annars gæðalitlum leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Óskar Örn Hauksson og Kristján Flóki skoruðu báðir og lögðu upp á hvorn annan. Kristinn Jónsson var mjög öflugur í sóknarleik KR-inga líkt og oft áður.

Hvað hefði mátt betur fara?

Stjörnumönnum vantaði smá gæði í sendingar til þess að geta klárað fleiri sóknir með skotum og færum. Þeir taka gott undirbúningstímabil og mæta klárir 2022.

Hvað gerist næst?

Hjá þessum liðum gerist ekki neitt. Það er væntanlega bara lokahóf í kvöld og menn skemmta sér aðeins. Bæði liðin dottin út úr bikarnum og hafa því lokið leik árið 2021.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira