Enski boltinn

Segir að Zlatan hafi næstum brotið á sér oln­bogann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Örskömmu síðar small boltinn í olnboganum á Tom Heaton.
Örskömmu síðar small boltinn í olnboganum á Tom Heaton. Getty Images

Manchester United og Burnley skildu jöfn 0-0 í ensku úrvalsdeildinni þann 29. október 2016. Tom Heaton, markvörður Burnley þann daginn, hefur nú staðfest að hann hafi næstum brotið á sér olnbogann er hann varði skot Zlatan Ibrahimović í leiknum.

Heaton hóf ferilinn hjá Manchester United en fékk aldrei tækifæri með aðalliðinu. Eftir að hafa leikið með Swindon Town, Cardiff City, Rochdale, Wycombe Wanderers, Bristol City, Burnley og Aston Villa er markvörðurinn genginn aftur í raðir Man United.

Hann var í opinberu hlaðvarpi félagsins að ræða leikinn fræga í október 2016 þar sem Heaton átti stórleik. Alls varði hann 11 skot í leiknum, þar á meðal þrumuskot sænska framherjans sem var nálægt því að brjóta olnbogann á Heaton, að eigin sögn.

„Fólk spyr mig hvort ég hafi gert eitthvað öðruvísi fyrir þennan leik en svo var ekki. Undirbúningurinn var sá sami og alltaf. Það var auðvitað einstök tilfinning að snúa aftur á Old Trafford og mögulega gaf það mér byr undir báða vængi,“ sagði Heaton í hlaðvarpi Manchester United nýverið.

„Ég man mjög vel eftir þessum leik. Við vörðumst í 90 mínútur og þeir áttu 39 skot í leiknum. Ég átti nokkrar fínar markvörslur og varslan gegn Zlatan var ein af þeim. Ég mun aldrei gleyma henni. Olnboginn á mér var í henglum eftir á,“ sagði Heaton um vörsluna sem sjá má hér.

Hinn vingjarnlegri Juan Mata kom til Heaton eftir að markvörðurinn lagðist í grasið og sagði honum að halda áfram með leikinn því það væri ekkert að honum.

„Ég get lofað honum að ég var ekki að plata,“ sagði Heaton að endingu og hló. Þeir tveir eru liðsfélagar hjá Man Utd í dag. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.