Erlent

R. Kel­ly mun ekki bera vitni í eigin máli

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
R. Kelly mun ekki stíga í vitnastúku í eigin máli. 
R. Kelly mun ekki stíga í vitnastúku í eigin máli.  getty/Antonio Perez

Tónlistarmaðurinn R. Kelly lýsti því yfir við dómara í dag að hann muni ekki bera vitni í dómsmáli sínu. Kelly er ákærður fyrir mansal og fjölda kynferðisbrota. Þetta þýðir að saksóknarar munu ekki fá tækifæri til að spyrja Kelly út í ákæruliðina og þá vitnisburði sem fram hafa komið hjá meintum brotaþolum hans.

Lögmenn Kellys höfðu þegar lýst því yfir að ólíklegt væri að hann settist upp í vitnastúku. Talið er líklegt að vitnaleiðslum muni ljúka í dag og að málflutningur hefjist á næstu dögum. Fréttastofa AP greinir frá. 

Verjendur Kellys hafa að miklu leyti stólað á vitnisburði fjölda fyrrverandi starfsmanna Kellys og annarra kunningja hans, sem hafa reynt að grafa undan ásökunum um að hann hafi kynferðislega brotið á konum, stúlkum og drengjum á þrjátíu ára tónlistarferli sínum.

Flest vitni verjendanna hafa sagt að þau hafi aldrei séð Kelly misnota neinn og einn sagði Kelly alltaf hafa komið vel fram við kærustur sínar. Annar viðurkenndi að Kelly bæri ábyrgð á því að tónlistarferill hans hafi tekið á flug.

Til samanburðar hafa saksóknarar kallað til tugi vitna síðan aðalmeðferð málsins hófst í Alríkisdómstóli í Brooklyn þann 18. ágúst síðastliðinn. Þar á meðal hefur verið fjöldi kvenna og tveir karlmenn sem hafa sakað Kelly um kynferðisofbeldi gegn sér. Flest voru þau sammála um það að Kelly hafi nýtt sér umboðsmenn sína, lífverði og aðstoðarmenn til að lokka til hans möguleg fórnarlömb á tónleikum Kellys, í verslunarmiðstöðvum og á skyndibitastöðum sem hann heimsótti reglulega.

Í vitnisburði allra ásakendanna kom fram að þegar þeir hafi kynnst Kelly hafi hann beitt þá kynferðislegu- og andlegu ofbeldi. Fyrstu tilfellin má rekja til tíunda áratugar síðustu aldar. Einn fyrrverandi starfsmaður Kellys bar vitni fyrir dómi þar sem hann ýjaði að því að starfsmenn hafi fengið borgað til að horfa fram hjá misnotkuninni.

Kelly hefur ítrekað neitað sök og heldur því fram að allir ásakendur hans séu aðdáendur sem hafi viljað notfæra sér frægð hans og frama þar til MeToo bylgjan hófst. Þá hafi þessir „aðdáendur“ snúist gegn honum.


Tengdar fréttir

Segir R. Kel­ly hafa lofað sér frægð í skiptum fyrir kyn­líf

Fyrsti karlinn, sem hefur ásakað tónlistarmanninn R. Kelly um að hafa beitt sig kynferðisofbeldi, vitnaði fyrir dómi í gær og sagði Kelly hafa lofað sér frægð í skiptum fyrir kynlíf. Gærdagurinn var áttundi dagur réttarhaldanna yfir tónlistarmanninum.

Greiddu mútur svo R. Kel­ly gæti gifst 15 ára stúlku

Fyrr­verandi tón­leika­skipu­leggjandi söngvarans R. Kel­ly viður­kenndi fyrir rétti í gær að hann hefði mútað opin­berum starfs­manni til að falsa skil­ríki söng­konunnar Aali­yah þegar hún var 15 ára svo Kel­ly gæti gifst henni. Þau töldu þá að hún væri orðin ó­létt eftir hann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.