Erlent

Bandaríkjaher játar mistök vegna drónaárásar í Kabúl

Árni Sæberg skrifar
Drónaárásin olli gríðarlegum skemmdum.
Drónaárásin olli gríðarlegum skemmdum. Bernat Armangue/AP Photo

Þann 29. ágúst síðastliðinn framkvæmdi Bandaríkjaher drónaárás í Kabúl sem grandaði tíu almennum borgurum, þar af sjö börnum úr sömu fjölskyldu. Hershöfðinginn Kenneth McKenzie sagði á upplýsingafundi í dag að hann telji nú að þau sem létust í árásinni hafi ekki tengst Ríki Íslams né verið hættuleg hermönnum á flugvellinum í Kabúl.

AP fréttaveitan greinir frá:

„Ég er nú sannfærður um að allt að tíu almennir borgarar, þar af allt að sjö börn, hafi látist á vofveiglegan hátt í árásinni,“ segir hershöfðinginn en Bandaríkjaher hefur haldið því fram til þessa að árásin hafi verið réttmæt.

„Ég votta fjölskyldu og vinum þeirra sem létust innilegar samúðarkveðjur. Árásin var framkvæmd í góðri trú um að hún myndi afstýra yfirvofandi hættu gagnvart herliði okkar og flóttamönnum á flugvellinum. En það voru mistök og ég biðst innilega afsökunar,“ segir Kenneth Mckenzie.

Hann segir jafnframt að Bandaríkin íhugi nú að greiða fjölskyldu fórnarlambanna bætur vegna árásarinnar.

McKenzie segir að árásin hafi ekki verið gerð í flýti og að reynt hefði verið að takmarka skaða almennra borgara.

Aðspurður hvort einhver yrði gerður ábyrgur fyrir mistökunum sagði hann rannsókn málsins vera í ferli.

„Bandaríkin verða að framkvæma ítarlega, gagnsæja og hlutlausa rannsókn á atvikinu,“ segir Brian Castner, yfirmaður hjá Amnesty International. „Hver sem er grunaður um ólögmætt athæfi í tengslum við árasina skal saksóttur fyrir rétti. Þeim sem lifðu árásina og fjölskyldum fórnarlambanna skal haldið upplýstum um gang rannsóknarinnar og þeim greiddar fullar bætur,“ bætir hann við.

Þremur dögum áður en drónaárásin var gerð hafði Íslamska ríkið gert mannskæða sprengjuárás á þvögu fólks við flugvöllinn í Kabúl og mikil óreiða ríkti í borginni eftir valdatöku Talíbana.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.