Erlent

Minnst níutíu Af­ganar hafa farist og ISIS lýsir yfir á­byrgð

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hryðjuverkahópurinn ISIS-K hefur lýst yfir ábyrgð á sprengjuárásinni.
Hryðjuverkahópurinn ISIS-K hefur lýst yfir ábyrgð á sprengjuárásinni. Getty/Sayed Khodaiberdi Sadat

Minnst níutíu hafa farist í sprengjuárás sem framin var af hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í dag. Þá fórust tólf bandarískir hermenn í árásinni.

Fréttastofa Guardian greinir frá þessu. Fregnir hafa borist síðustu mínútur af frekari sprengingum í Kabúl en fréttastofa Reuters hefur nú fengið það staðfest að um hafi verið að ræða skipulagða sprengingu á vegum bandaríska hersins, sem var að sprengja upp skotvopn. 

Minnst níutíu eru látnir og hátt í 150 særðir eftir árásirnar í dag, auk tólf hermanna Bandaríkjahers. Tíu ár eru liðin síðan svo margir bandarískir hermenn féllu í einni árás í Afganistan. 

Þá virðist sem skotbardagi hafi brotist út við flugvöllinn í Kabúl fyrir stuttu. 

Tveir menn sprengdu sig í loft upp í dag með litlu millibili skammt frá einu hliðanna að flugvellinum í Kabúl. Þeir eru sagðir hafa sett sprengjurnar af stað þegar bandarískir hermenn, sem stóðu vörð við flugvöllinn, leituðu á þeim. 

Undirhópur hryðjuverkahópsins sem kallast ISIS hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Hópurinn kallast ISKP, en höfuðstöðvar hans eru í Khorasan héraðinu í Afganistan. Hópurinn var strax grunaður um að bera ábyrgð á árásinni, en bandarísk yfirvöld lýstu því í vikunni að þau hefðu áhyggjur af mögulegum árásum ISIS. 

Talsmaður Talibana hefur fordæmt árásina. Talibanar eru nú sagðir hafa unnið með vestrænum aðilum undanfarna daga í upplýsingagjöf. Talsmaður Talibana segir að nærvera vestrænna hersveita í Afganistan kalli fram árásir sem þessar, sem þeir fordæma. 

Bandaríska leyniþjónustan deilir nú upplýsingum með Talibönum og hefur gert undanfarna daga.

ISIS hefur undanfarna daga sótt í sig veðrið en Talibanar hafa lofað Afgönum að tryggja frið í landinu. Talibanar lýstu sprengjuárásinni í dag sem illlvirki, sem muni ekki endurtaka sig eftir brottför vestrænna hersveita. Talibanar hafa jafnframt lýst því yfir að Afganistan muni ekki verða öruggt skjól fyrir hryðjuverkahópa, eins og það var á fyrri valdatíð Talibana, þegar al-Qaeda hafði höfuðstöðvar í landinu. 

Fylgst verður með vendingum í málefnum Afganistan í kvöld og greint frá þeim vendingum í vaktinni hér að neðan. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×