Fótbolti

Guðlaugur Victor sá rautt er Schalke tapaði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson nældi sér í beint rautt spjald í dag.
Guðlaugur Victor Pálsson nældi sér í beint rautt spjald í dag. Lars Baron/Getty Images

Guðlaugur Victor Pálsson og félagar hans í Schalke tóku á móti Karlsruher SC í þýsku B-deildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur 1-2, en Guðlaugur Victor var sendur snemma í sturtu.

Leikurinn fór ekki vel af stað fyrir Guðlaug Victor og félaga, en Choi Kyoung-Rok kom gestunum yfir strax á fyrstu mínútu leiksins.

Simon Terodde jafnaði metin fyrir heimamenn á 15. mínútu og staðan var 1-1 þegar að flautað var til hálleiks.

Marcin Kaminski kom boltanum í netið fyrir Schalke snemma í seinni hálfleik, en eftir frekari skoðun myndbandsdómara var markið dæmt af vegna rangstöðu.

Á 72. mínútu fór Guðlaugur Victor í tæklingu þar sem hann freistaði þess að stöðva hraða sókn gestanna. Það tókst vissulega að stöðva sóknina, en dómari leiksins fór í vasann og dró upp beint rautt spjald á fyrirliðann.

Leikmenn Schalke þurftu því að spila manni færri seinustu tuttugu mínúturnar. Gestirnir nýttu sér liðsmuninn og Marvin Wanitzek tryggði Karlsruher sigurinn með fallegu marki á 88. mínútu.

Karlsruher er nú í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir sjö leiki. Guðlaugur Victor og félagar sitja í því áttunda með tíu stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.