Erlent

Ásakandi Andrésar getur birt honum stefnu vestra

Kjartan Kjartansson skrifar
Giuffre heldur því fram að Andrés prins hafi vitað af því að hún væri sautján ára gömul og fórnarlamb mansals þegar hann misnotaði hana fyrir um tuttugu árum. Prinsinn hefur neitað allri sök.
Giuffre heldur því fram að Andrés prins hafi vitað af því að hún væri sautján ára gömul og fórnarlamb mansals þegar hann misnotaði hana fyrir um tuttugu árum. Prinsinn hefur neitað allri sök. Vísir/EPA

Dómari í New York í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að kona sem sakar Andrés prins um að hafa níðst á sér þegar hún var undir lögaldri geti birt honum stefnu þar vestra. Lögmenn Andrésar reyna að þræta fyrir að honum hafi verið birt stefna konunnar í Bretlandi á lögmætan hátt.

Virginia Giuffre stefndi Andrési, hertoga af Jórvík, í Bandaríkjunum en hún sakar hann um að hafa misnotað sig kynferðislega þegar hún var undir lögaldri. Hún heldur því fram að Andrés hafi vitað að hún væri fórnarlamb mansals Jeffreys Epstein, bandarísks auðkýfings, sem hefur verið sakaður um stórfelld kynferðisbrot og mansal á ungum konum. Epstein svipti sig lífi í bandarísku fangelsi í fyrra.

Andrés prins, sem er næstelsti sonur Elísabetar Bretadrottningar, hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu. Ekki aðeins það heldur segist hann ekki minnast þess að hafa nokkru sinni hitt Giuffre.

Deilt hefur verið um það fyrir breskum dómstólum hvort Giuffre geti birt Andrési stefnu sína þar í landi. Lögmenn Andrésar hafa haldið því fram að það hafi verið gert með ólögmætum hætti og því hafi honum enn ekki verið birt stefnan. Mikið er í húfi því teljist stefnan hafa verið birt Andrési verður hann að taka til varna fyrir dómi því annars gæti hann átt á hættu að tapa málinu sjálfkrafa, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Nú hefur dómari í New York sagt að Giuffre geti birt lögmanni Andrésar í Bandaríkjunum stefnuna. Vísaði hann til þess að lögmenn Giuffre hefðu þegar reynt að birta Andrési stefnuna í Bretlandi samkvæmt reglum alþjóðlegs samnings sem bæði Bandaríkin og Bretland eiga aðild að.

Dómari á Bretlandi hefur þegar fallist á að hægt sé að birta Andrési stefnuna þar. Hann hefur gefið lögmönnum prinsins frest fram á næsta föstudag til að áfrýja þeirri niðurstöðu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×