Íslenski boltinn

Bolta­strákur ÍR-inga felldi að­stoðar­dómarann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá skjámynd af atvikinu á Hertz velli ÍR-inga í gær.
Hér má sjá skjámynd af atvikinu á Hertz velli ÍR-inga í gær. S2 Sport

Þetta var mjög eftirminnilegt bikarsumar fyrir ÍR-inga en því lauk með tapi á móti Skagamönnum í gærkvöldi. Ungur ÍR-ingur gleymir örugglega ekki þeim leik í bráð.

Boltastrákur ÍR-inga kom nefnilega óvænt mikið við sögu í leiknum í Mjóddinni í gær. Hann varð nefnilega fyrir aðstoðardómaranum Jóhanni Gunnari Guðmundssyni sem steinlá eftir. Mjólkurbikarmörkin skoðuðu þetta atvik í gær.

„Það getur stundum verið hættulegt að vera dómari en í gær varð atvik sem þú sérð ekki á íslenskum fótboltavelli hvenær sem er,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson, umsjónarmaður Mjólkurbikarmarkanna.

Klippa: Mjólkurbikarmörkin: Boltastrákur ÍR felldi aðstoðardómarann

„Horfið á aðstoðardómarann, Jóhann Gunnar. Sjáið að hann bakkar þarna og bæng, kemur krakkinn og fellir hann,“ sagði Henry Birgir en Þorkell Máni Pétursson benti líka á það að á sama tíma var öðrum bolta kastað inn á völlinn.

„Hvaða kemur þessi bolti þarna,“ spurði Máni en Henry Birgir var með svörin við því: „Það voru krakkar að leika sér þarna við hliðina,“ sagði Henry.

„Ertu viss um það? Heldur ekki að það hafi verið svona suðuramerísk stemmning þarna í Breiðholtinu: Þeir eru að fara að taka hratt innkast, köstum öðrum bolta inn á,“ sagði Þorkell Máni í léttum tón.

Henry Birgir sagði einnig frá því að það hefði verið í lagi með krakkann og vildi líka hrósa Jóhanni Gunnari aðstoðardómara.

„Hann gerði þetta geysilega vel hvernig hann forðaði sér frá því að labba yfir krakkann,“ sagði Henry.

„Hann stóð síðan upp og hélt áfram á meðan allir voru að athuga það hvernig barnið hefði það,“ sagði Þorkell Máni.

„Ég sá að Arnar Hallsson (þjálfari ÍR) tók hann á bekkinn og hjúkraði honum aðeins,“ sagði Henry.

Það má sjá atvikið hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.